141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:51]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir að gefa mér tækifæri til að endurtaka það sem ég reyndi að segja á tíu mínútum áðan. Ég ætla að gefa mér núna eina og hálfa mínútu til þess.

Í fyrsta lagi: Þeir sem hafa viljað vernda hingað til hafa verið kallaðir andstæðingar uppbyggingar atvinnulífs en þeir sem hafa viljað virkja verið taldir unnendur uppbyggingar atvinnulífs. Í hinum nýja veruleika, í hinni nýju atvinnupólitík, er þetta ekki svona lengur. Mikil verðmæti felast í því að vernda og það eru mikil verðmæti sem felast í því fyrir hið nýja atvinnulíf. Það er mikil verðmætasköpun sem felst í því að huga vel að umhverfinu og ekki bara í ferðaþjónustu vegna þess að það er svo gott að fara með útlendingana um í hestaferðum. Nei, öll þessi fyrirtæki sem eru að selja vöru á erlendri grundu nýta sér beint eða óbeint þá ímynd sem Ísland hefur. Hver er hún? Það er ímynd lands hreinleika, lands hreinnar náttúru, þar sem afurðirnar eru hreinar.

Hvort sem við erum að selja gervifætur eða fisk eða lopapeysur eða snyrtivörur á erlendum mörkuðum nýtum við okkur þessa ímynd. Þess vegna verðum við að stíga varlega til jarðar ef við ætlum okkur að virkja. Það eru milljarðar sem felast í þessari ímynd. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt að virkja í Þjórsá. Við skulum bara láta náttúruna njóta vafans. Við skulum ekki taka þann séns að skemma laxastofninn í Þjórsá af því að okkur liggur svo á. Ef við ætlum að láta virkjunina standa í 60 ár skiptir okkur engu þótt við bíðum í tvö ár í viðbót til að kanna og vera fullviss um að það sé í lagi með laxinn í Þjórsá.