141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi segja að ég er að nokkru ósammála hv. þingmanni um þá vinnu sem var unnin á faglegum grunni við rammaáætlun. Ég er þeirrar skoðunar að sú vinna hefði átt að standa því að það var þar sem var verið að gera málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða. Ég hef áhyggjur af því að þessi rammaáætlun sé einungis til skamms tíma vegna þess að þær málamiðlanir og sú faglega vinna sem þar var unnin leiði einfaldlega til þess að menn muni taka þetta upp vegna þess að þetta er fyrst og fremst pólitískt plagg en ekki á breiðum grunni.

Einn af þeim aðilum sem hefur fjallað um þessa áætlun er fyrirtækið Gamma sem fjallaði um að þær pólitísku breytingar sem er búið að gera á rammaáætlun feli í sér 270 milljarða tekjutap, það verði 4–6% minni hagvöxtur og 5 þús. ársverkum færri á næstu fjórum árum.

Hv. þingmaður fjallaði í ræðu sinni um ákveðin atriði í atvinnusköpun sem við getum verið sammála um að feli í sér gríðarleg sóknarfæri, m.a. ferðamennsku og hönnun. Þrátt fyrir sóknarfærin í þessum atvinnugreinum, og ekki hvað síst í ljósi þess að fjárlögin sem verið er að afgreiða núna frá þinginu fela í sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð inn í mikilvægar grunnstoðir samfélagsins, og þeir sem hafa gagnrýnt það segja að það sé ekki innstæða fyrir þessu vegna þess að fjárfestingar séu ekki nægilegar, hagvöxtur ekki nægur o.s.frv., spyr ég: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við þessari breytingu sem þarna á sér stað, 270 milljarða tekjutapi, 4–6% minni hagvexti og 5 þús. töpuðum ársverkum? Telur hv. þingmaður að þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt til komi til móts við þetta og getur hv. þingmaður rökstutt það (Forseti hringir.) með einhverjum tölulegum úttektum?