141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín stjórnmálanálgun gengur út á að ég vil gjarnan skapa jafnvægi á milli verðmætasköpunar og velferðarkerfis. Ég tel að með því að halda báðum hlutum mikilvægum í nálgun okkar og vinnu sem hér er sköpum við gott samfélag. Það gerum við með því að gæta að því að skapa verðmæti í landinu, við gætum að því að passa upp á velferðarkerfið vegna þess að í gegnum verðmætasköpunina sköpum við fjármuni til að styðja við velferðarkerfið en það verður engin verðmætasköpun í samfélaginu ef ekki er til staðar velferðarkerfi. Þannig hangir þetta tvennt saman.

Það birtist í þessari fjárfestingaráætlun í þeim fjárlögum sem jafnaðarmenn eru nú að ganga frá, en gætum að því að nálgun okkar jafnaðarmanna sem birtist svo skýr í þessum fjárlögum er að við horfum til framtíðar er snertir verðmætasköpun. Við horfum til framtíðar þegar við horfum til þess hvernig við ætlum að skapa verðmæti í þessu landi en við horfum ekki til fortíðar eins og allt of margir stjórnmálaflokkar og þingmenn gera á hinu háa Alþingi.