141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta lögformlega ferli samþykktum við sjálfstæðismenn en okkur datt ekki í hug, við höfðum ekki svo frjótt ímyndunarafl, að ríkisstjórnin mundi misfara svona hrikalega með það vald sem Alþingi fól henni. Ég spyr hv. þingmann aftur: Trúir hann því virkilega að betra sé að fara á fulla ferð og vera á fullu gasi í jarðhitavirkjunum sem þarf að rannsaka mun betur? Við höfum minni reynslu hvað varðar jarðhitavirkjanir en vatnsaflsvirkjanir. Með sömu lógík og sömu forsendum og hv. þingmaður setur fram hefði hann átt að leggja fram tillögu um að setja allar jarðhitavirkjanir í biðflokk að minnsta kosti, út frá þeirri sömu lógík og hann þrammar hér upp í ræðupúltið með.

Ég ítreka spurningu mína um tillögu okkar sjálfstæðismanna: Hefði ekki verið betra, upp á það að stíga varlega til jarðar, skuldbinda alla stjórnmálaflokka fram yfir kosningar, að (Forseti hringir.) fela verkefnisstjórninni það verkefni að forgangsraða virkjunarkostum? (Forseti hringir.) Er það ekki varlegasta skrefið, hæstv. forseti?