141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni hv. þingmann á það sem ég sagði áðan, þ.e. að ég hefði sett fyrirvara um málið og ég teldi rétt að styðja málið eins og það væri nú vaxið í ljósi þeirra aðstæðna sem væru í málinu núna og í ljósi þeirra efnisraka sem fram hefðu verið færð. Það er niðurstaða mín.

Það sem skiptir miklu máli. Hv. þingmaður skautar nú dálítið létt yfir þegar hann reynir að tína hér fjaðrir og fjaðrir á stangli og skreyta Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn með þeim (Utanrrh.: Búa til lasburða hænuna.) — og búa til lasburða hænu, eins og hæstv. utanríkisráðherra kallar hér fram í, ég mundi frekar kalla þetta að reyna að tjasla saman einhverju hænulíki og kalla það flugfugl.

Það sem við vitum og þekkjum í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili, tillögur um þrjú álver á þremur árum o.s.frv. eru tillögur sem miða (Forseti hringir.) hvorki að efnahagslegum stöðugleika né farsælli sambúð nýtingar og verndunar.