141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði það áðan að við sjálfstæðismenn tókum þátt í því að samþykkja að setja málið allt saman í lögformlegt ferli. Við höfðum ekki ímyndunarafl eða hugarflug í að ríkisstjórn Íslands mundi taka það og gera það að því pólitíska plaggi sem hún gerði. Hvaða nýju umsagnir komu fram í því lögbundna ferli umfram það sem verkefnisstjórnin fékk? Engar nýjar, engar nýjar efnislegar, heldur tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að handvelja ákvarðanir um virkjunarkosti og setja þá yfir í biðflokk til þess að sætta sjónarmið innbyrðis til þess að láta ríkisstjórnina lafa alla vega fram að kosningum.

Ég spyr með sömu röksemdafærslu: Ef menn ætla að láta náttúruna njóta vafans af hverju gerðu menn ekki það sama varðandi jarðhitavirkjanirnar sem á eftir að rannsaka mun meira, eins og t.d. á Reykjanesi? Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er orðið að bullandi pólitísku plaggi. Í stað þess að nota tækifæri til þess að múlbinda alla stjórnmálaflokka fram yfir kosningar með raunhæfum tillögum sem byggja fyrst og fremst á hugmyndum verkefnisstjórnarinnar (Forseti hringir.) tekur ríkisstjórn Íslands, vinstri flokkarnir, þann möguleika (Forseti hringir.) að glutra niður tækifærinu í umhverfis- og virkjunarmálum.