141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fór aðeins yfir það áðan hversu Samfylkingin er að reyna að skreyta sig með stolnum fjöðrum hér í umræðunni. Það fór um hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árna Pál Árnason og eflaust fleiri þegar ég opnaði þessa umræðu. Það er nefnilega þannig að það eru fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem hafa ýtt úr vör þessari hugmyndafræði um víðtæka sátt um framtíðarskipan í orkunýtingarmálum. Samfylkingin tók við keflinu ásamt Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn sem var stofnuð 2007. Þá hafði ferlið verið að ganga alveg frá árinu 1993. Síðast hafði verið skipuð þriggja manna verkefnisstjórn árið 2004. Í skipunarbréfi hennar kom fram að hún skyldi undirbúa fleiri virkjunarhugmyndir til mats og bæta gögn eða endurskoða tillögur ýmissa hugmynda sem teknar voru fyrir í 1. áfanga. Áhersla var lögð á að fá heildarmat á sem flestum háhitasvæðum. Það var enn fremur gert ráð fyrir því að þörf kynni að vera á að þróa áfram aðferðir við mat á náttúrufari. Í þessu ferli var stöðugt horft meira og meira til jarðhitans, meira og meira til verndunarsjónarmiða og markmiðið varð auðvitað alveg ljóst, að reyna að ná þessari víðtæku sátt sem hér hefur verið vitnað til.

Því er ekki hægt að segja annað en að menn ættu að sleppa því að reyna að skreyta sig hér með stolnum fjöðrum, þótt hæstv. utanríkisráðherra finnist það mynda lélega hænu þegar við ræðum þetta og förum yfir staðreyndir málsins. Það hefur svo sem verið einkenni þeirra sem nú stýra landinu og áður í öðrum málum.

Hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á það áðan um hvað þetta ferli snýst og fór yfir varúðarreglu umhverfisréttar og að láta náttúruna njóta vafans. Ég held að við séum í sjálfu sér öll sammála um það, að rétt sé að láta náttúruna njóta vafans. Ég tel að markmiðið með hinu faglega ferli sem málið hefur verið í innan verkefnisstjórnarinnar hafi einmitt verið að láta náttúruna njóta vafans. Það kemur meira að segja fram í nefndarálitum meiri hlutans þar sem hið faglega ferli er rómað og hin faglegu vinnubrögð verkefnisstjórnarinnar og faghópanna lítið gagnrýnd.

Við erum að feta einhverja fína línu á milli verndunar og nýtingar. Við getum endalaust fundið einhvern fyrirvara á því að hefja nýtingu þar sem náttúran nýtur vafans. Það er endalaust hægt að draga fram slíkar skýringar. Við komum einhvern tímann að þeim tímapunkti að við verðum að taka ákvarðanir í málinu. Við eigum að taka þær af skynsemi og yfirvegun og við eigum ekki að setja of mikið undir í einu. Það er einmitt það sem er gert ráð fyrir í framkvæmdaráætlun Landsvirkjunar og í umræðu og tillögum okkar sjálfstæðismanna, að við tökum næsta skref.

Það hefur mikið verið rætt um virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár og þær bornar saman við þær áherslur sem endurspeglast í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er einfaldlega þannig að um jarðvarmann ríkir miklu meiri óvissa. Þar þurfum við að stíga með enn meiri varúð til jarðar þegar við ákveðum næstu skref. Það er eðli þeirra virkjana að þær verður að byggja upp hægt. Það verður að meta afrakstursgetu svæðanna. Það verður að meta þá útkomu sem er til dæmis af mögulegri loftmengun o.s.frv. Það eru mörg atriði sem koma þar inn í. Þess vegna stangast í raun niðurstaða þessarar rammaáætlunar og niðurstaða ráðherranna — hún er í hrópandi ósamræmi við málflutning hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem töluðu um hversu varlega yrði að stíga til jarðar og að náttúran yrði að njóta vafans o.s.frv. Vegna þess að ef við berum þetta saman við vatnsaflsvirkjanir sem eru rannsakaðar í þaula, eins og t.d. virkjunarkostir okkar í neðri hluta Þjórsár, er miklu meiri fyrirsjáanleiki í öllu sem snýr að vatnsaflsvirkjunum.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram að virkjunarkostir til dæmis í Holtsá og Hvammsvirkjun eru rennslisvirkjanir sem hafa mjög lítil umhverfisáhrif og eru sennilega einhverjir hagkvæmustu virkjunarkostir okkar í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. Það sama á við um Norðlingaölduveitu þar sem hugmyndir hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Menn hafa lagt sig fram um í þeim breytingum að nálgast náttúruverndarsjónarmiðin með eins miklum áherslum og mögulegt er. Að mati Landsvirkjunar og forstjóra þess fyrirtækis er niðurstaðan er orðin sú að við erum með einhvern hagkvæmasta virkjunarkost landsins í Norðlingaölduveitu, bæði í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti.

Það er eins og þessi sjónarmið nái ekki í gegn. Það vekur auðvitað upp þá spurningu í mannshuga hvort það sé nokkur vilji til sátta. Niðurstaðan og afleiðingarnar af því að rammaáætlun verði afgreidd með þeim hætti sem hún liggur fyrir hér eru skelfilegar. Áætlunin fetar alls ekki þá fínu leið nýtingar og verndunar sem markmiðið var að gera.

Hv. þm. Árni Páll Árnason og einnig Magnús Orri Schram komu inn á að það hefðu einungis verið teknir sex virkjunarkostir frá fyrri rammaáætlun og færðir úr nýtingarflokki niður í biðflokk til að kanna þá betur. Það væri nú ekki stórt, bara sex virkjunarkostir. En það vill bara svo til að hér er um að ræða grundvallarvirkjunarkosti. Þá virkjunarkosti sem skipta okkur öllu máli til að geta haldið áfram að láta orkufrekan iðnað og nýtingu orkuauðlindanna byggjast upp samhliða, sem menn vilja kalla nýja atvinnustefnu á Íslandi en er í sjálfu sér ekki ný. Það er ekkert nýtt við að menn vilji efla nýsköpun og auka fjölbreytni í atvinnulífinu.

Það hefur verið stefna okkar sjálfstæðismanna í áratugi. Það vorum við sem stigum þau skref upphaflega og börðumst fyrir því að skotið yrði fleiri stoðum undir íslenskt samfélag með því að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Það voru átökin sem voru hér í kringum 1960 þegar sú ákvörðun var tekin upphaflega að fara af stað í orkufrekan iðnað. Að byggja hér upp atvinnuveg sem væri ein af grunnstoðum okkar ásamt öflugum sjávarútvegi. Það hefur tekist vel. Sem betur fer fyrir íslenska þjóð og íslenskt samfélag tókst okkur að feta þessa leið. Við höfum lært mikið á vegferð okkar. Við verðum að halda áfram.

Það er enginn sem getur mótmælt því að kannski er ein helst uppspretta nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni í atvinnulífi einmitt orkufrekur iðnaður og öflug fyrirtæki sem auka verðmætasköpun og fjármagn til landsins. Auka athygli erlendra fyrirtækja á landinu, hvað hér getur verið gott umhverfi og hvað er hægt að skapa hér gott umhverfi fyrir almennt atvinnulíf. Það er kannski helst þetta sem hefur verið hvatinn að því að efla íslenska nýsköpun og efla fleiri greinar til dáða. Þannig að þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hér og ræða um hið nýja Ísland, hið nýja atvinnulíf þar sem náttúran skapi útflutningsverðmæti og standi hér undir ákveðnum grunnþáttum, þá er engin breyting.

Það var reyndar ein breyting þegar hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á að m.a. gæti þetta aukið framleiðslu á lífrænt ræktuðum vörum sem væru hugsaðar til útflutnings. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var að grínast eða hvort hann meinti þetta, að bera saman framleiðslu á landbúnaðarvörum og orkufrekan iðnað til að skapa fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Það er auðvitað allur þessi málflutningur sem stenst enga skoðun. Hann er málskrúð og er í þeim anda sem þessi ríkisstjórn hefur talað.

Ég held að tímabært sé að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir horfist í augu við veruleikann. Horfist í augu við hvernig þeir hafa talað gagnvart atvinnulífinu, hvað þeir hafa skrifað undir gagnvart atvinnulífinu, hverju þeir hafa lofað þessari þjóð. Það er alveg ljóst að með þeirri rammaáætlun sem hér liggur fyrir er verið að stíga stórt skref afturábak (Forseti hringir.) í þessum málaflokki. Það felst mikið tjón fyrir samfélagið (Forseti hringir.) í því ef við ætlum að afgreiða þetta með þessum hætti.