141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ferð atvinnuveganefndar um Suðurland var áhugaverð. Við skoðuðum meðal annars virkjunarstæði Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjana í neðri hluta Þjórsár. Því hagar þannig til með Urriðafossvirkjun, af því að sérstaklega er spurt um hana, að þann 19. ágúst á næsta ári verða tíu ár liðin frá því að umhverfismati var lokið við þann virkjunarkost. Það er því ljóst að ekki verður sótt um virkjunarleyfi fyrir Urriðafossvirkjun fyrir þann tíma, það þarf að endurnýja umhverfismatið. Það má því segja að Urriðafossvirkjun muni í sjálfu sér frestast þess vegna, hún þarf að fara í gegnum umhverfismat að nýju þar sem væntanlega verður tekið tillit til þessara þátta sem annarra.

Það er eitt vandamál við biðflokkinn eins og hann er í dag sem þyrfti að endurskoða, það er hversu mikið hann takmarkar rannsóknarmöguleika þeirra sem ætla að virkja. Það er allt í lagi að hafa virkjunarkosti í biðflokki, Urriðafossvirkjun gæti að mínu mati alveg farið í biðflokk, en þá þurfum við að auka möguleika þeirra sem ætla að virkja á því að gera þær rannsóknir sem þörf er á til að taka ákvörðun um hvort virkjunarkosturinn á að fara í nýtingarflokk eða verndunarflokk.

Varðandi laxastofnana í Þjórsá hefur ítrekað komið fram bæði hjá Landsvirkjun og Veiðimálastofnun að þar hafa verið stundaðar rannsóknir í meira en tíu ár, sennilega tíu til tuttugu ár og mjög stíft í tíu ár. Niðurstöður þeirra rannsókna liggja fyrir. Þeir telja að ekki verði gengið lengra í þeim áður en byggt verður. Það er auðvitað alveg kjörið eins og hv. þm. (Forseti hringir.) Sigurður Ingi Jóhannsson segir að byrja á Hvamms- og Holtavirkjun og fá þar reynsluna af þeim lausnum sem (Forseti hringir.) hafa verið reiddar fram gagnvart laxastofnum í ánni.