141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég held að það gæti verið grundvöllur að sátt um virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár.

Í seinna andsvari mínu ætla ég að víkja að virkjununum í Skaftárhreppi. Þar eru fjórir valkostir settir upp í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Einn af þeim virðist vera sá sem samfélagið hefur sameinast mest um, þótt það sé ekki að öllu leyti, vissulega er einhver ágreiningur um það eins og alls staðar er. Það er Hólmsárvirkjun.

Það hefur komið fram hjá þingnefndum og í umræðunum í dag að gögn töpuðust í því máli, það voru mannleg mistök að ekki var tekið á öllum þáttum þess hjá verkefnisstjórninni. Hins vegar var gerð grein fyrir því strax að þessi gögn hefðu tapast og öllum var það ljóst. Þar á meðal ráðherrunum sem tóku málið til umfjöllunar. Þeir sendu það að nýju út til umsagnar og fengu meðal annars umsagnir frá sveitarstjórninni í Skaftárhreppi og þeim aðilum og öðrum sem tengjast þessari virkjun.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að það hefði átt að vera frumkvæðisskylda þessara ráðherra að láta rannsaka þennan kost til hlítar til þess að hann fengi að njóta sannmælis eins og augljóslega hefði verið ef ekki hefðu komið til þau mannlegu mistök að týna gögnum. Og jafnvel frumkvæðisskylda umhverfis- og samgöngunefndar, formanns og framsögumanna og nefndarinnar allrar og meiri hlutans á að láta rannsaka þennan kost. Nægur hefur tíminn verið frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér. Ég man ekki í hversu marga mánuði, hvort það var nær ár, málið lá inni hjá ráðherrunum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að menn hafi hreinlega brugðist frumkvæðisskyldu sinni með því að láta ekki rannsaka málið til að geta lagt það fyrir þingið með tilhlýðilegum og faglegum hætti.