141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt satt og rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni og er í raun mjög mikilvægt atriði í allri þessari umræðu vegna þess að við í stjórnarandstöðunni, sérstaklega framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, höfum gagnrýnt mjög vinnubrögð ráðherranna og það sem við köllum hin pólitísku fingraför á málinu. Hér er óræk sönnun þess sem við höfum fyrir okkur í málflutningi okkar. Ráðherrarnir telja til raka með ákvörðun sinni að setja virkjunarkost í neðri hluta Þjórsár í biðflokk að það hafi komið fram nýjar upplýsingar um laxastofninn, sem er reyndar ekki rétt. Ef málið er skoðað grannt eru þetta ekki nýjar upplýsingar eins og ég hef farið hér yfir. Þeir höfðu undir höndum þær nýju upplýsingar sem fram höfðu komið um Hólmsárvirkjun og voru meðvitaðir um þær og hefðu því með sömu rökum að sjálfsögðu átt að eiga frumkvæðisskyldu að því að skoða þann virkjunarkost nánar sem og þau gögn sem lágu fyrir en voru fyrir mistök ekki tekin fyrir hjá verkefnisstjórninni. Þetta sýnir okkur hver hinn pólitíski vilji er í málinu, virðulegi forseti. Þetta er alvarleiki málsins. Á þessu byggist í raun gagnrýni okkar. Hún endurspeglast nákvæmlega í þessu atriði.

Mikilvægi þessara virkjana er óumdeilt fyrir samfélagið í Austur-Skaftafellssýslu sem er samfélag í sárum og þarf á öflugri atvinnuuppbyggingu að ræða. Það er fróðlegt að bera mikilvægi þeirra saman við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, en þar er gert ráð fyrir að byggja þarna þekkingarsetur. Það á að setja 290 milljónir í þetta þekkingarsetur á næsta ári í staðinn fyrir að stuðla að arðbærri fjárfestingu (Forseti hringir.) sem skapar verðmæti, skapar störf, skapar útflutningsverðmæti. (Forseti hringir.) Þess í stað eiga það að vera svona allt að því félagslegar aðgerðir sem eiga að bjarga (Forseti hringir.) atvinnulífinu og þeim erfiðleikum sem við erum í.