141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í þeim umræðum sem hér hafa farið fram og nú síðast í andsvörum við hv. þm. Jón Gunnarsson hefur nokkrum sinnum verið rætt um biðflokkinn og vandræðin í kringum hann; annars vegar hvernig hann er skilgreindur og hins vegar hvernig menn ætla að fjármagna þær rannsóknir og nauðsynlegu framkvæmdir sem þarf að gera á undirbúningstímabilinu áður en menn geta tekið ákvörðun um hvað skuli gera við viðkomandi virkjunarkost.

Í umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar, þess sem hér stendur, frá atvinnuveganefnd til umhverfis- og samgöngunefndar og sem fylgir nefndaráliti 1. minni hluta, hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, segir á bls. 3 um nýjan biðflokk, með leyfi forseta:

„Í umræðunum um málið varð 2. minni hluta ljóst að erfitt er að fjármagna rannsóknir og annan undirbúning verkefna sem raðast í biðflokk. Var athygli nefndarmanna nokkrum sinnum vakin á því að biðflokkur er ekki hugsaður sem geymsluflokkur. Því lagði 2. minni hluti til að biðflokknum yrði skipt upp, annars vegar í biðflokk virkjunarkosta sem vilji væri til að geyma að taka ákvörðun um hvort ættu heima í verndarflokki eða nýtingarflokki og hins vegar nýr flokkur — biðflokkur til nýtingar — sem væri hugsaður fyrir verkefni þar sem óskað væri tiltekinna rannsókna og undirbúnings áður en hægt væri að ákveða hvort viðkomandi virkjunarkostur ætti heima í nýtingarflokki. Væri mönnum þannig gert fært að ráðast í umhverfismat, arðsemismat og aðrar rannsóknir áður en ákveðið yrði að ráðast í framkvæmdir.“

Um þetta vil ég segja að nokkrar umræður hafa orðið um þetta í dag og menn komið með hugmyndir um að þessi biðflokkur til nýtingar gæti t.d. heitið rannsóknarflokkur. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvort það sé gott að hugsa biðflokkinn sem geymsluflokk. Ég ætla að leggja inn nokkur rök fyrir því að svo sé.

Herra forseti. Ný tækni og nýir möguleikar á að nýta auðlindir án rasks, t.d. með skáborunum eða jafnvel láréttum borunum á löngum kafla eða djúpborunum, gera að verkum að virkjunarkostir sem við mundum hugsanlega við núverandi aðstæður og út frá þekkingu okkar í dag setja í verndarflokk geta verið orðnir góðir virkjunarkostir eftir einhverja áratugi með þeirri tækni sem þá verður til. Þá þurfum við ekki að fara inn á svæðið, þurfum ekki að raska því, svæðið getur verið verndað en við getum nýtt jarðhita sem er djúpt í iðrum jarðar.

Þannig hefur til að mynda Orkuveita Reykjavíkur bent á að það væri skynsamlegra að geyma Bitruvirkjun, sem hugmyndir voru uppi um en hefur verið færð í vernd, í biðflokki, án þess að gera neitt við þann kost í einhver ár eða áratugi. Þeir hafa bent á að önnur svæði á sambærilegum stað á Hengilssvæðinu sem eru óröskuð eru sett í biðflokk í dag, en hefðu kannski frekar átt að fara í verndarflokk.

Ég segi þetta ekki vegna þess að ég vilji, með þeirri tækni sem til er í dag, nýta svæði sem eru næst byggð eins og t.d. Hveragerði. Ég segi þetta einfaldlega vegna þess að hugsanlega verður komin ný tækni á næstu árum og áratugum sem mun gera okkur kleift að nýta slík svæði. Það hefði verið skynsamlegra að setja þessi svæði í geymslubiðflokk — flokkurinn væri hreinlega skilgreindur sem slíkur. Það væri ekkert athugavert við að nota biðflokkinn fyrir kosti sem við vildum ekki taka ákvarðanir um.

Með öðrum orðum, við mundum taka færri, afmarkaðri og minna umdeildar ákvarðanir um hvað við setjum í vernd og hvað við setjum í nýtingu. Síðan væri þessi nýi biðflokkur, rannsóknarbiðflokkur, hugsaður þannig að auðveldara væri að ná í fjármagn til að standa undir rannsóknum. Mjög margir aðilar í þessu ferli hafa sagt að það eitt að taka virkjunarkost úr nýtingarflokki og færa hann í bið geri mönnum mjög erfitt fyrir að fá fjármagn til að standa undir nauðsynlegum rannsóknum.

Hér hafa ýmsir í meiri hlutanum komið upp í dag og rætt mikið um varúðarsjónarmið umhverfismála og hversu mikilvægt það sé. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Ég sagði í fyrri ræðu minni í dag að það gæti verið skynsamlegt varúðarsjónarmið líka, vegna þess að samkvæmt þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu orkuauðlinda á að taka tillit til fleiri þátta en umhverfislegra eins og efnahagslegra og samfélagslegra, að taka tillit til erfiðs atvinnuástands og samfélaga sem þurfa virkilega á fjölbreyttari atvinnumöguleikum að ræða en þau hafa í dag. Í því sambandi hef ég minnst á Skaftárhrepp og Hólmsárvirkjun og mun ræða það betur í annarri ræðu þar sem ég sé að ég mun ekki hafa tíma til þess í þessari ræðu.

Varðandi varúðarsjónarmiðin vil ég vitna til áðurnefndrar umsagnar minnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hvað Hvammsvirkjun og Holtavirkjun varðar er vísað til varúðarsjónarmiða og talið að frekari rannsóknir þurfi að liggja fyrir um áhrif virkjunarframkvæmda á laxfiska í Þjórsá. Sömu rök eru lögð til grundvallar tilfærslu Urriðafossvirkjunar en að auki bent á að umhverfismat fyrir þá virkjun sé orðið átta ára gamalt. Í öllum framangreindum tilvikum vék iðnaðarráðherra frá þeim tillögum sem hin faglega verkefnisstjórn hafði lagt fram. Ávallt er það gert á grundvelli varúðarsjónarmiða, náttúran er látin njóta vafans. Ekkert er svo sem við það að athuga þó svo að benda megi á að inntak svokallaðrar varúðarreglu er síður en svo óumdeilt. […] Það er hins vegar mat ráðherrans á styrkleika vafans sem vekur athygli. Þannig virðast lítt rökstuddar efasemdir um gæði ítarlegra gagna vegna margra ára rannsókna á laxastofnum í Þjórsá og óljós grunur um að virkjun kynni að hafa áhrif, ekki á Vatnajökulsþjóðgarð sjálfan heldur á svæðið í kringum hann, gera það að verkum að kostir sem eru augljóslega þjóðhagslega hagkvæmir virkjunarkostir verða látnir sitja á hakanum um langt skeið. Óhætt er að segja að þessi atriði endurspegli forgangsröðun ráðherrans.

Það sem varpar enn frekara ljósi á sérstök vinnubrögð ráðherrans er þó eftirfarandi: Í tillögunni er virkjunarkosti 21, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, raðað í biðflokk. Sú röðun byggist á skorti á upplýsingum, þ.e. að mat faghópanna hafi ekki byggst á nýjustu gögnum og óvissa væri með áhrif á skóglendi og hvar línulögn mundi liggja. Á fundum nefndarinnar og umhverfis- og samgöngunefndar kom fram að mannleg mistök hafi meðal annars gert það að verkum að gögn um nýja staðsetningu virkjunarkostsins voru ekki lögð fyrir faghópana. Ný gögn hafi ekki uppgötvast fyrr en undir lok ferlisins og verkefnisstjórnin hafi ekki treyst sér til að hefja að nýju skoðun á virkjunarkostinum og draga þannig skil á niðurstöðum varðandi aðra kosti.

2. minni hluti fær ekki betur séð en að með nýjum áætlunum um virkjun hafi verið komið til móts við helstu gagnrýni sem heyrst hefur á eldri virkjunaráform sem verkefnisstjórnin yfirfór. Þá virðast þær upplýsingar sem faghóparnir yfirfóru ekki hafa verið ítarlegar og fullnægjandi. Þrátt fyrir þetta gerði ráðherra engan reka að því að rannsaka virkjunarkostinn sjálfstætt og bregðast við að neinu leyti. Ekkert mat virðist hafa verið lagt á hinar nýju upplýsingar af hans hálfu — hefur þó verið nægur tími til þess. Við þetta bætist að í minnisblaði orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins til iðnaðarráðherra“ — sem er fylgiblað umsagnar minnar — „og ráðuneytisstjóra, dagsett 5. janúar 2012, eru meðal annars færð fram rök fyrir því að í raun hafi komið fram gögn sem sýni fram á að ekki sé ástæða til að ætla að óvissa ríki um áhrif framkvæmdarinnar á skóglendi og legu línulagnar og líta beri svo á að gæði þeirra gagna sem borist hafa séu fullnægjandi. Því sé ekki þörf á frekari upplýsingum til að ákveða röðun virkjunarkostsins í orkunýtingarflokk eða verndarflokk“ — ef menn vildu fara þá leiðina. „Framangreind vinnubrögð ráðherrans gefa óhjákvæmilega til kynna að virkjunarkostir rammaáætlunar hafi aðeins verið hreyfanlegir í eina átt. Virðist mat ráðherrans á upplýsingum hafa verið formótað þannig að aðrar upplýsingar en þær sem með einhverjum hætti vöktu upp minnsta vafa um þá mynd sem fyrir lá hafi ekki verið tækar.“

Við þessa umsögn mína vil ég bæta að sömu rök gilda um frumkvæðisskyldu nefndarinnar að mínu mati. Ég tel að umhverfis- og samgöngunefnd hefði átt að rannsaka þennan kost. Allar upplýsingar lágu fyrir og það hefði átt að vera skylda nefndarinnar (Forseti hringir.) eins og ráðherranna að rannsaka kostinn og skila ítarlegri og faglegri tillögu til þingsins.