141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmönnum Samfylkingarinnar um að umhverfismál verði mjög mikilvæg í framtíðinni. Þau eru mikilvæg núna og þau verða mjög mikilvæg og geta orðið grundvöllur sóknar okkar í hinum ýmsu atvinnumálum, meðal annars í orkugeiranum vegna þess að við erum með endurnýjanlega orkugjafa. Ég er líka sammála hv. þingmanni. Ég fjallaði aðeins um það í fyrri ræðu minni að það væri sláandi þegar menn setja varúðarsjónarmið fram og þau rök um að umhverfismál eigi að vera sett á háan stall að þeir skuli þá taka góða kosti út í vatnsafli, kosti sem við höfum reynslu af, sem eru mjög arðbærir, hafa minna mengandi og minna truflandi áhrif á umhverfið, þ.e. á þætti sem við getum ekki ráðið við þegar kemur að jarðvarmavirkjunum svo sem brennisteinsgufur og annað í þeim dúr. Það því mjög sláandi að jarðvarmavirkjunarkostir (Forseti hringir.) séu skildir eftir í þingsályktunartillögunni en kostir sem eru að margra mati (Forseti hringir.) mjög góðir og lítt skemmandi umhverfið skuli vera (Forseti hringir.) teknir út í nafni umhverfisverndar.