141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árið 1999 fékk verkefnisstjórnin verkefni sem hét samkvæmt verklýsingu iðnaðarráðherra Maður, nýting, náttúra. Þar var lögð áhersla á að það ætti að vera hlutverk viðkomandi stofnana eins og Orkustofnunar og Náttúrustofnunar Íslands að standa fyrir rannsóknum vegna viðfangsefnisins og vera þannig verkefnisstjórninni öflugur bakhjarl; Orkustofnun á sviði orkumála og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt Náttúruvernd ríkisins í málum sem varðar náttúrufar og mat á verndargildi. Settur var upp sérstakur samráðs- og ráðgjafarvettvangur sem stjórnvöld fólu Landvernd að standa að, og allir vita hvað Landvernd stendur fyrir.

Sýnir það ekki alveg í hnotskurn að þeir flokkar sem þá voru við stjórnvölinn og settu þessa merkilegu vinnu af stað, gerðu sér einmitt grein fyrir því að náttúruvernd og samspil nýtingar og verndar væri eitt flóknasta viðfangsefni okkar og (Forseti hringir.) að okkur bæri að bera mikla virðingu fyrir náttúrunni og að náttúruvernd yrði eitt af forgangsmálum (Forseti hringir.) okkar inn í framtíðina?