141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, og ég hef vikið að því í mínu máli, að það er sláandi að þeim kostum sem eru arðsamastir og að mínu mati, og margra annarra, hafa minnst umhverfisleg áhrif og minnsta hættu á einhverjum áhrifum til framtíðar sem við ráðum ekki við, eins og t.d. margar af þeim vatnsaflsvirkjunum sem voru teknar út, skuli vera hent en kostir skildir eftir sem raðast neðar samkvæmt hagkvæmni. Það er líka sláandi þegar litið er til þess að markmið laga nr. 48/2011, sem er þá svona markmiðsútfærsla á lögunum um rammaáætlun, er einmitt að taka tillit til efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa nýtingar, þar með talið verndar.

Mér finnst að það sem hafi skort og sé ójafnvægið í því sé að öfgar á umhverfislega þætti hafa gengið of langt á kostnað (Forseti hringir.) efnahagslegra og samfélagslegra þátta og við sitjum uppi með verri kosti, (Forseti hringir.) sem eru ekki eins arðsamir og skynsamlegir fyrir þjóðhagslega nýtingu.