141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan hér í dag hefur verið athyglisverð. Við sjáum það endurspeglast í umræðunni og með tillögugerð og málflutningi stjórnarliða að þeir eiga erfitt, sérstaklega samfylkingarmenn, með að viðurkenna að málið hafi verið sett í pólitískan farveg. Þó að þeir viðurkenni það ekki beint er alveg ljóst að þeim líður illa yfir því úr hvaða farvegi málið var tekið til að gera það pólitískt en ekki faglegt. Ég held að málflutningur hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur hafi undirstrikað hversu pólitískt málið er orðið. Hún sagði á sínum tíma að munnlegt samkomulag væri um framkvæmdastopp, það skipti engu máli þó að þingið væri ekki einu sinni búið að afgreiða rammaáætlunina, ríkisstjórnin væri búin að ákveða þetta enda brást verkalýðshreyfingin mjög harkalega við því að ekki ætti að fara í frekari framkvæmdir.

Ég vil spyrja hv. þingmann, eins og ég hef spurt aðra þingmenn sem hafa tekið til máls hér í dag, og tel svarið mikilvægt af því að hv. þingmaður mun halda áfram á þingi eftir kosningar: Telur hann sig bundinn af þeirri niðurstöðu (Forseti hringir.) sem þingið mun hugsanlega greiða atkvæði um ef hún verður byggð á tillögu ríkisstjórnarinnar? Er hv. þingmaður bundinn því eftir kosningar?