141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einn stjórnarþingmaður talaði fyrr í kvöld um hvort ég vildi ræða málið í öðrum bakherbergjum. Það undirstrikar væntanlega að þetta hefur verið rætt í einhverjum bakherbergjum ríkisstjórnarflokkanna.

Ég lýsti því í ræðu hér fyrr í kvöld að ég hefði áhyggjur af því að sú stefna sem hér er boðuð muni seinka hagvexti og þar með framgangi á Íslandi. Ég les það líka út úr því að þeir sem tala fyrir málinu virðast ekki leggja áherslu á að þetta verði til þess að efla hagvöxt. Það er sagt að það sé nóg til af orku í kerfinu í dag. Ég er ósammála því, ég held að það þurfi að sýna fram á meiri orku til að fá fleiri tækifæri og fleiri kosti að velja á milli.

Ég er enn á því að það hefði verið betri kostur að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar upp á það að koma með málið inn betur útlítandi (Forseti hringir.) en það var, en verði það ekki samþykkt er ég að sjálfsögðu opinn fyrir því að samþykkja aðrar leiðir.