141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður setur málið í þetta samhengi get ég ekki annað en tekið undir með þingmanninum, hér er sagt að ef á þessu leiki vafi og ekki mögulegt að sanna óyggjandi er þessi regla orðin býsna umsvifamikil ef ég má orða það þannig. Þarna er ekki í það minnsta, ef ég skil þetta rétt, gert ráð fyrir að það þurfi að vera augljós hætta eða eitthvað slíkt, heldur sé nóg að það sé minnsti grunur. Þá veltir maður fyrir sér hvort túlkunin sé komin út fyrir það sem gæti talist eðlilegt.

Ef ekki eru skýr þau viðmið sem þarf eða á að nota er varhugavert að vitna í og gefa þessari reglu það vægi sem hún vissulega fær í þessu plaggi verði það samþykkt.