141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var um margt athyglisverð. Ég ætla að staldra við tvö atriði, í fyrsta lagi það sem hv. þingmaður sagði um Skatastaðavirkjanir, að það væru virkjanir sem allir væru sammála um að væri mjög gott að ráðast í enda færi ekki mikilvægt svæði þar undir. Ég vil vekja athygli þingmannsins á því að þessar virkjanir eru hjá verkefnisstjórn metnar frekar hátt af sjónarhóli verndar vegna þess að þarna eru á ferðinni, miðað við niðurstöðu verkefnisstjórnar, einhver mestu flæðiengi á Norðurlöndum við Héraðsvötn.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort það væru komin fram einhver ný gögn eða hvort eitthvað mikið hefði breyst frá því að verkefnisstjórnin vann sína vinnu.

Hv. þingmaður vitnaði aðeins í nefndarálit meiri hlutans á bls. 13 og því spyr ég hvort hann hafi kynnt sér öll þau sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 24–25 þar sem aldeilis er bætt í þau sjónarmið sem eiga að vera til grundvallar fyrir næstu verkefnisstjórn sem gera málið það viðamikið, (Forseti hringir.) að því er ég vil meina, að mjög mikill kostnaður muni hljótast af. Ég get vart séð að það verði hægt að ráðast í frekari framkvæmdir verði þetta allt að veruleika.