141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er býsna langt seilst þarna með því að segja næstu verkefnisstjórn fyrir verkum. Ég man ekki alveg hvernig það er orðað í lögunum varðandi það þegar skilin verða, hvað við sendum nákvæmlega til þeirra sem taka munu við, en ég ætlaði að fara aðeins yfir nokkra af þeim þáttum á eftir sem fjallað er um í kaflanum um álitaefni um orkunýtingu á háhitasvæðum.

Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að mér finnst vera svolítil mótsögn þarna. Hér er talað um tvær virkjanir í vatnsafli, það eru um 66 megavött, ef ég man rétt, en talað er um 1.000 megavött í nýtingu á jarðhita. Síðan er hér langur listi yfir um hvað beri að forðast og hvað beri að rannsaka og allt það. Þó svo að gert sé ráð fyrir nýtingu á jarðhita finnst mér eins og menn séu líka á móti því eða setji alla vega mikla fyrirvara við það. Það getur vel verið að það sé eðlilegt að vera með fyrirvara (Forseti hringir.) og ég tek undir það að ef það á eftir að gera miklar rannsóknir á jarðhitanum, fari menn mjög varlega. Þess vegna segi ég að það hefði verið betra fyrir okkur að vera með fleiri vatnsaflsvirkjanir sem við þekkjum og færri jarðhitavirkjanir.