141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa afar athyglisverðu ræðu og tek undir með hv. þingmanni að það væri óskandi að við bærum gæfu til þess á Alþingi að fara einmitt eftir vinnu verkefnisstjórnarinnar sem var byggð á þessum faglega grunni. Það er mjög dapurlegt að fylgjast með því ítrekað hvernig vikið er út frá því á Alþingi. Þegar hægt er að ná breiðri sátt um hin einstöku mál er ítrekað verið að víkja út frá því og í rauninni virðist ekki vera vilji til þess að ná breiðri sátt. Í þessum málaflokki er gríðarlega mikilvægt að orkumál þar sem menn eru búnir að teygja sig úr báðum áttum séu unnin í sátt.

Hv. þingmaður kom inn á ákveðin verkefni sem væri búið að taka út og það kom líka fram í andsvörum að það væri búið gera ákveðnar breytingar. Það kom fram í umsögnum um þetta mál að þær breytingar sem búið er að gera geri það að verkum að þjóðarbúið verði af 270 milljörðum og að gert sé ráð fyrir því að á næstu fjórum árum verði 4–6% minni hagvöxtur og að atvinnulífið verði af 5 þús. störfum.

Það kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og fleiri stjórnarþingmanna að þeir meti það svo að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar muni skila þessum hagvexti. Hvað vill hv. þingmaður segja um þetta mál í samræmi við fjárlagafrumvarpið þar sem einmitt var talað um að við værum að ráðast í of mikil útgjöld miðað við það sem væri að gerast á hinni hlið ríkisfjármálanna, þ.e. í hagvexti, verðmætasköpun og öðru því um líku? Deilir hv. þingmaður þeim áhyggjum ekki með þeim sem hér stendur að með því að taka þessi verkefni út séum við í rauninni að kippa stoðunum undan möguleika þess meðal annars að veita fjármuni inn í heilbrigðiskerfið og velferðarþjónustuna? Eða er hv. þingmaður sammála því að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar muni skapa hér 4–6% (Forseti hringir.) hagvöxt, 5 þús. störf og 270 (Gripið fram í.) milljarða?