141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað deili ég þeim áhyggjum sem birtast í andsvari hv. þingmanns um fjárlögin og stöðuna í þeim. En verkefnisstjórnin um rammaáætlun vann þetta plagg sitt á faglegum forsendum, inn í það blandaðist ekki hver staða ríkissjóðs væri, hver niðurskurður í velferðarkerfinu hefur verið eða staða Íbúðalánasjóðs og hversu mikilvægt er að taka á þeim málum. Það er ekki meðal þeirra sjónarmiða sem höfð voru uppi við þessa vinnu. Það er að sjálfsögðu réttmæt umræða þar sem hún á heima, t.d. eins og við áttum hér orðastað um fjárlagafrumvarpið fyrir nokkrum dögum. Auðvitað væri hægt að segja þar sem þetta mál kemur inn í fjárlagaumræðuna, hagvaxtarspárnar og það allt saman út frá þeirri hlið að við gætum verið búin að klára þetta mál í þinginu fyrir allnokkru hefði verið til þess pólitískur vilji og hefði lagafrumvarpið sem þetta allt saman átti að byggja á, koma rammaáætlunar inn í þingið, ekki verið föst inni í stjórnarflokkunum í marga mánuði. Ég held að ég muni það rétt að hv. þingmaður hafi setið í þingflokki Vinstri grænna þegar þetta mál var fast þar inni og hann gæti kannski upplýst okkur um það hvers vegna þetta tók allt saman svona langan tíma.

Hefði þetta mál komið fram fyrr í þinginu og hefði verið fylgt þeim faglegu niðurstöðum sem verkefnisstjórnin lagði fram, þ.e. röðuninni sem verkefnisstjórnin lagði fram, væri þessi áætlun hugsanlega komin til framkvæmda og við værum farin að sjá frekari og fleiri verkefni komin lengra og komin lengra af stað en hér er raunin, t.d. virkjanir í Þjórsá svo dæmi sé nefnt.