141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Staðreyndin er sú að þær breytingar sem voru gerðar á rammaáætlun kosta þjóðarbúið 270 milljarða, við verðum af 4–6% hagvexti og við það tapast 5 þús. störf. Það er staðreynd en hins vegar hafa verið færð rök fyrir því að hugsanlega muni fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eða breytt atvinnustefna koma eitthvað til móts við þetta.

Ég held hins vegar að það muni ekki ná upp í þetta og þá verða auðvitað þeir að svara fyrir þær breytingar sem leggja þær fram og segja okkur hvernig menn réttlæta þær. Telja þeir að það sé mögulegt að efla hagvöxtinn með öðrum hætti? Það er síðan forsendan fyrir því að geta veitt fé inn í heilbrigðiskerfið. Það er það sem ég hef áhyggjur af eins og hv. þingmaður. Staðreyndin er sú að okkur skortir verulegt fjármagn, m.a. til að geta sett fjármuni inn í heilbrigðiskerfið og löggæsluna. Til þess þurfum við að ná hagvextinum upp.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í framkvæmdir sem áætlaðar voru í kjördæmi hv. þingmanns, í Skaftárhreppi sem er einmitt einn af þessum dreifbýlu hreppum sem hefur átt gríðarlega erfitt. Menn þar hafa horft upp á mikla fólksfækkun. Ég veit að þetta er í kjördæmi þingmannsins og því langaði mig að fá hv. þingmann til að fara aðeins betur yfir stöðuna í því sveitarfélagi, hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár og hvernig heimafólk á þessu svæði lítur á tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Hvaða skilaboð færir þetta íbúum á þessu svæði, eru þetta jákvæð skilaboð, eru menn ánægðir með þessar breytingar? Getur hv. þingmaður farið aðeins ofan í þetta og afstöðu manna á þessu svæði? Þetta svæði hefur svo sannarlega mátt þola mikla fólksfækkun og það sem maður hefur heyrt er að flestir á þessu svæði séu mjög undrandi. Getur hv. þingmaður farið aðeins betur yfir þetta?