141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir góða ræðu og góða yfirferð yfir þetta mikilvæga mál. Honum var tíðrætt um þau efnahagslegu áhrif sem felast í þessari tillögu ríkisstjórnarinnar. Ég er sammála honum í því að þau eru auðvitað mjög alvarleg og sérstaklega á þessum viðsjárverðu tímum þar sem er kallað svo mikið eftir beinni erlendri fjárfestingu. Í raun hefur ríkisstjórnin gefið út að hún vilji hvetja til beinnar erlendrar fjárfestingar en það er ekki að sjá samræmi í orðum og gerðum á þeim vettvangi, kannski frekar en í svo mörgu öðru þegar kemur að því.

Hv. þm. Magnús Orri Schram og Árni Páll Árnason héldu ræður um málið fyrr í kvöld. Sérstaklega var Magnúsi Orra tíðrætt um þessa nýju atvinnustefnu fyrir Ísland, að náttúran skyldi njóta vafans og að það mikilvægasta í þessu væri óspillt náttúra og að við mundum byggja atvinnulíf okkar á nýjum hugmyndum. Mig langar aðeins að viðra það við hv. þingmann hvort í tillögunum felist einhver efning á þeim orðaflaumi þar sem áherslum er forgangsraðað í þágu háhitavirkjana, jarðvarmavirkjana. Teknir eru út hinir augljósu vatnsaflskostir eins og Skrokkölduvirkjun og neðri hluti Þjórsár, Urriðafoss og þær virkjanir sem þar koma, Holta- og Hvammsvirkjun fyrir ofan. Þeir eru teknir út, þeir eru komnir lengst og búið er að rannsaka þá mest en áherslan er öll lögð á jarðvarmavirkjanir, t.d. á Reykjanesi og Hellisheiði. Er það eitthvað í samræmi við þær fullyrðingar um að hér eigi náttúran að njóta vafans þar sem er verið að velja virkjunarkosti sem klárlega eru undirorpnir miklu meiri vafa en þeir vatnsaflskostir sem verið er að setja til hliðar?