141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, mér finnst að ríkisstjórnin sé komin í mótsögn við sig í þessu efni. Augljósir virkjunarkostir eins og í Þjórsá eru teknir úr nýtingarflokki og settir í biðflokk meðan menn ætla að ganga mjög hart fram á kannski lítt rannsökuðum svæðum eins og hvað jarðhitann varðar. Án þess að ég sé á móti slíkum virkjunum finnst mér þetta með ólíkindum.

Eins og ég nefndi áðan hefur Gamma í skýrslu sinni gefið þá umsögn að vegna þess að þessir virkjunarkostir eru færðir úr nýtingu í biðflokk muni fjárfestingar í orkuframleiðslu og -flutningi dragast saman um 120 milljarða á árabilinu 2012–2016 og fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og afleidd áhrif af þeim muni dragast saman um 150 milljarða til viðbótar á sama tímabili. Við erum að tala um minni fjárfestingu upp á 270 milljarða kr. á árabilinu 2012–2016, því tímabili sem ríkissjóður og íslenskt samfélag þarfnast einmitt aukinnar fjárfestingar. Það er mjög einkennilegt og grátbroslegt að horfa upp á þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar við horfum upp á að tekjuhlið ríkissjóðs, vegna minni fjárfestingar, er ekki eins há og hún hefði getað verið. Það bitnar á heilbrigðisstarfsfólki og velferðarkerfinu almennt. Á sama tíma — og það er kannski hluti af atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar — eru listamannalaun tvöfölduð. Það er í alvöru tillaga í þinginu um að tvöfalda listamannalaun. (Gripið fram í: Hneyksli.) Hvar erum við stödd hérna? Er ríkisstjórnin gersamlega veruleikafirrt þegar kemur að atvinnumálum? Hún stendur síðan að þessari tillögu hér sem mun minnka fjárfestingu í íslensku samfélagi um heila 270 milljarða.