141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og ég er algerlega sammála. Forgangsröðunin er náttúrlega í hrópandi ósamræmi við þennan málflutning um mikinn afrakstur. Þetta er óskiljanlegur málflutningur.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem töluðu fyrr í kvöld skreyttu þeir sig með þeim fjöðrum að það hefði fyrst verið settur kraftur í þessi mál þegar Samfylkingin fór í ríkisstjórn árið 2007. Nú hefur hv. þm. Birkir Jón Jónsson setið á Alþingi síðan 2003 og man því tímana tvenna í þessum málum. Hann man væntanlega eftir því hverjar áherslur ríkisstjórnarinnar voru þegar vinnu við fyrsta áfanga rammaáætlunar lauk í nóvember 2003 og ný þriggja manna verkefnisstjórn var skipuð í september 2004. Ég vændi hv. þingmenn Samfylkingarinnar um að þeir væru að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti á kjörtímabilinu sem ríkisstjórnarflokkarnir reyna það að mínu mati. Hv. þingmaður hefur reynslu og þekkingu frá þeim tíma (Forseti hringir.) þegar þessi vinna var einmitt í forgangi hjá þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks (Forseti hringir.) og mig langar til að biðja hann að fara aðeins yfir áherslurnar sem þá voru uppi.