141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir efnahagsleg áhrif af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á upphaflegum drögum þingsályktunartillögu um rammaáætlun og gerði það prýðilega. Það er athyglisvert í þessu sambandi að skoða lögin sem þingsályktunartillagan byggir á. Þar er vísað annars vegar í verndarþáttinn og hins vegar í nýtingarþáttinn með hliðsjón af hagkvæmni og arðsemi.

Það sem blasir við er að þessi þingsályktunartillaga einkennist af þeirri ákvörðun ráðherradúettsins sem undirbjó þetta mál að ýta til hliðar öllum vatnsaflsvirkjununum, sem vel að merkja eru hagkvæmustu virkjunarkostirnir sem við áttum í raun völ á. Eins og komið hefur fram í umræðunni í dag og í kvöld eru nærtækustu virkjunarkostirnir þeir sem eru í neðri hluta Þjórsár. Þeir eru lengst komnir í undirbúningi, þá er búið að skoða mest og best og undirbúa tæknilega, og í þá væri hægt að ráðast nánast eins og skot. Það mundi samstundis skila sér í mjög auknum umsvifum í hagkerfi okkar og hafa þau áhrif að búa til störf meðan á framkvæmdum stæði, afleidd störf í kjölfarið sem síðar mundu leiða til frekari uppbyggingu starfa í þeim iðngreinum sem mundu nýta orkuna.

Það er augljóst að hér er farið á svig við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar lagasetningunni sjálfri sem þingsályktunartillagan byggir á. Það er mjög alvarlegt, ekki bara vegna þess að það sé efnahagslega óskynsamlegt að ýta þeim virkjunarkostum til hliðar heldur líka vegna þess að þarna er farið af stað með mál sem er augljóslega ekki í samræmi við anda og markmið þeirra laga sem þingsályktunartillagan sjálf byggir á. Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta vegna þess að þetta snýr beint að okkur (Forseti hringir.) þingmönnum sem settum lögin.