141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu vegna þess að komið hefur fram í mínu máli að ríkisstjórnin fer fram með mál í ófriði en ekki friði. Ég tel að í þessu máli sem og öðrum sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir þá sé þetta fyrst og fremst því að kenna að mikið ósætti er innan ríkisstjórnarflokkanna um stefnu ríkisstjórnarinnar. Nú síðast í tíufréttum í kvöld var viðtal við hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon þar sem hann tilkynnti til dæmis að hann ætlaði að leggja fram fiskveiðistjórnarfrumvarpið þó að Samfylkingin væri ekki búin að fullræða það hjá sér. Svo sagði hann bara: Ja, við erum í viðræðum. Það á að leggja þetta frumvarp fram óbreytt þrátt fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki samþykkt frumvarpið á síðasta þingi. Einkahagsmunir ríkisstjórnarinnar við að lifa nokkrum dögum lengur eru farnir að bitna mjög á þjóðarhag og hversu veika ríkisstjórn við höfum starfandi í landinu. Þetta er grafalvarleg staða. Hér er verið að leggja til raunverulegt virkjunarbann sem þýðir að ekki er verið að skapa atvinnu á almenna vinnumarkaðinum og hvað þýðir það? Þegar fólk er atvinnulaust getur það ekki borgað skuldir sínar. Ríkisstjórnin er með þessu máli enn eina ferðina að skrúfa samfélagið niður í það hyldýpi sem er fyrirsjáanlegt og það er engin bjartsýni, engin von og engin framtíðarsýn í verkum eða störfum ríkisstjórnarinnar. Ég segi nú bara: Guði sé lof fyrir að það eru kosningar eftir nokkrar vikur. Það er alveg komið að þolmörkum hvað er hægt að leggja á landsmenn lengur að þessi ríkisstjórn sitji.