141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir yfirferðina. Ég hef aðeins staldrað í þessari umræðu í kvöld við það sem ég vil kalla froðusnakk samfylkingarmanna um þessa rammaáætlun. Hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Magnús Orri Schram komu fram í kvöld og sögðu meðal annars að tækifæri fælust í óspilltri náttúru, náttúran skapaði nýju atvinnulífi útflutningsverðmæti. Þeir nefndu reyndar framleiðslu lífræns grænmetis í því sambandi, að það gæti skapað mikil útflutningsverðmæti, og að Ísland gæti orðið fyrirmyndarland í náttúruvernd, umhverfismál væru mikilvægust fyrir atvinnulíf framtíðarinnar.

Ég held að við getum í sjálfu sér öll verið sammála um margar af þessum yfirlýsingum. Við erum held ég sammála um að auka þurfi fjölbreytni eins mikið og hægt er í íslensku atvinnulífi. Það var einmitt forsendan fyrir því að við fórum í nýtingu orkuauðlindanna á sínum tíma. Tekist var á um það 1960 hvort menn ættu að fara út í stóriðju í landinu til að skjóta styrkari stoðum undir fjölbreyttara atvinnulíf, fjölbreyttari afkomu þjóðarinnar.

Þetta finnst mér vera froðusnakk hjá Samfylkingunni og þessum hv. þingmönnum. Þetta er innihaldslaust, sérstaklega ef við horfum til þess hvaða virkjanir eru síðan valdar. Öll áherslan í þessari rammaáætlun liggur í því að hefja virkjanir í jarðvarma. Þær eru settar í forgang þó að óvissan sé miklu meiri þar en í vatnsaflinu þar sem virkjunarkostir eru augljósir, fyrirsjáanleiki alger og mestar rannsóknirnar hafa farið fram. Þeir virkjunarkostir eru settir til hliðar. Finnst hv. þingmanni eitthvað vera til í því sem ég er að segja um að það fylgi ekki hugur máli, þetta sé innihaldslaust froðusnakk um einhver slagorð sem fá (Forseti hringir.) ekki staðist ef skoðaðar eru þær áherslur sem dregnar eru fram (Forseti hringir.) í þeirri rammaáætlun sem liggur fyrir þinginu?