141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja þetta andsvar á svari til hv. þm. Birgis Ármannssonar, sem ég gleymdi áðan, varðandi það hvort sú stefna sem birtist í rammaáætluninni höfði til tiltekins hóps stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Auðvitað er þetta gert fyrir þá últragrænu umhverfissinna sem hafa kosið Vinstri græna.

Varðandi froðusnakkið, sem hv. þm. Jón Gunnarsson er að tala um, úr munni samfylkingarþingmanna, auðvitað er þetta ekkert annað en gamalkunnugt froðusnakk. Ég held að þingmennirnir ættu aðeins að kynna sér hvernig grænmetisræktun fer fram. Það þarf rafmagn til gjörlýsingar í gróðurhúsum. Ég veit ekki hvort þeir ætla að spandera einhverju af jarðvarmavirkjanarafmagninu í þá útflutningsgrein sem þeir sjá fyrir sér. Við komum alltaf að sama stað í þessari umræðu. Hér þarf að virkja skynsamlega. Hér þarf að búa til rafmagn úr orkunni sem við höfum, vegna þess að við erum rík af auðlindum, til að hér geti farið af stað eitthvert atvinnulíf.

Ég er mjög hrifinn af þeirri hugmynd að hér verði reist garðyrkjuver til útflutnings. Við eigum kalda vatnið til vökvunar, við eigum heita vatnið til hitunar og rafmagn til lýsingar. Þetta er ákjósanleg atvinnugrein sem hefur ekki mikinn stofnkostnað í för með sér. Byggja þarf nokkra hektara undir gleri og þá er þetta komið. En það þarf líka að koma til móts við þá atvinnugrein og afla orku.

Um þær jarðvarmavirkjanirnar sem lögð er áhersla á núna og eru komnar í þessa áætlun segi ég ekki annað en það, vegna þess að hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru orðnir svo umhverfisvænir, (Forseti hringir.) útblástur mengandi efna frá jarðvarmavirkjunum (Forseti hringir.) hefur ekkert verið rannsakaður svo nokkru nemi þegar við höfum vatnið fossandi (Forseti hringir.) í öllum ám og lækjum.