141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera aðrar mótsagnir í málflutningi samfylkingarmanna, sérstaklega í þessu máli. Mig langar að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um náttúruverndina sem lögð er svo mikil áhersla á af hálfu samfylkingarþingmanna og ég fór yfir áðan.

Í ræðum þeirra, eins og kom fram, var eins og fyrst árið 2007 hefði verið settur alveg sérstakur kraftur í að vinna rammaáætlun. Ég fór yfir það í ræðu minni fyrr í kvöld hver saga rammaáætlunar er. Það er auðvitað ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem á heiðurinn af þeirri vinnu, setti hana af stað, setti markmiðin fyrir hana og kom á laggirnar fjórum faghópum. Faghópur I fjallaði um náttúru- og menningarminjar, faghópur II um útivist og hlunnindi, faghópur III um þjóðfélagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og faghópur IV um nýtingu orkulinda. Verkefnisstjórn mótaði síðan aðferðafræðina og vinnureglur á grundvelli tillagna faghópanna. Faghóparnir fóru svo yfir gögnin um virkjunarhugmyndir og mátuðu og skiluðu niðurstöðum til verkefnisstjórnar. Í kjölfarið vann verkefnisstjórnin úr niðurstöðum faghópanna. Það er alveg ljóst að áhersla var lögð á alla þætti málsins af hálfu þeirra sem til þessa verkefnis kölluðu.

Nú birtist aftur á móti niðurstaðan okkur í þessari rammaáætlun eftir að allir þingflokkar hafa rómað starf faghópanna og verkefnisstjórnarinnar í umsögnum og öðru sem menn hafa látið eftir sér hafa. Er þingmaðurinn sammála mér um að það (Forseti hringir.) endurspeglast engan veginn í niðurstöðunum hér (Forseti hringir.) þar sem freklega er vikið frá niðurstöðum þessarar rómuðu faglegu vinnu? (Forseti hringir.) Enn meira froðusnakk, geri ég ráð fyrir.