141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gladdist yfir einu þegar ég hlustaði á ræður hv. þingmanna Magnúsar Orra Schrams og Árna Páls Árnasonar því að ég sá að það rofaði til í höfði þeirra í kvöld vegna þess að þeir mundu skyndilega að þeir eru búnir að sitja fimm ár í ríkisstjórn, síðan 2007. Oft og tíðum hefur það hljómað svo í þingsal að þeir virðist ekki muna að þeir hafi setið í ríkisstjórn frá árinu 2007. En það að þessir þingmenn Samfylkingarinnar ætli að þakka sér það starf sem unnið hefur verið — ég fór, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson, yfir þróun þessa máls frá upphafi í ræðu minni fyrr í dag og þetta mál á sér langa sögu undir forustu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og það verður ekki tekið af þessum flokkum.

Vinstri menn kalla gjarnan þessa tvo flokka stóriðjuflokka, að þeir vilji hér spúandi álver. Vinstri menn hafa gjarnan kallað þessa flokka það. En það voru samt þessir flokkar sem fóru af stað með rammaáætlun á sínum tíma. Það er verið að tala um að virkja í sátt við náttúruna. Það er málflutningur vinstri manna. Líklega eru þessir hv. þingmenn að tala til síns fylgis því að ég veit að ákveðnir stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru á sömu atvinnulínu og Framsóknarflokkurinn, þ.e. skilja samhengið milli atvinnu og reksturs heimilis.

Þingmennirnir hljóta að sýna það í atkvæðagreiðslu ef þeir vilja að þessi rammaáætlun taki gildi frekar en sú sem lögð var til grundvallar (Forseti hringir.) þegar lögin voru sett. Það verður fróðlegt að fylgjast (Forseti hringir.) með atkvæðagreiðslunni þegar þetta mál kemur til kasta þingsins.