141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Málið er nú til umræðu í annað sinn. Fyrir réttum tveimur vikum var síðari umræða hafin en henni er fram haldið í dag og umræðurnar hafa, eins og hv. þingmenn hafa séð, leitt í ljós töluvert mismunandi nálgun á viðfangsefninu.

Í raun og veru eru allir þingmenn sem hér hafa talað a.m.k. í orði kveðnu ánægðir með hugmyndina um rammaáætlun. Ég held að við getum gengið út frá því að ræður allra þingmanna sem hafa tjáð sig um þau efni hafa verið á þann veg að sú nálgun sé jákvæð sem felst í því að gera rammaáætlun þar sem tekið er tillit til fjölmargra þátta varðandi vernd og nýtingu landsvæða hvað orkumál varðar. Það sé jákvætt að reyna þannig að ná einhverju jafnvægi í sambandi við ákvarðanatöku á því sviði. Ég vil draga þá ályktun af ræðum manna í dag og raunar líka á fyrri degi umræðunnar þann 23. nóvember. Það er í raun og veru ágætt.

Auðvitað eru það kannski engin ný tíðindi í ljósi þess að allir flokkar hafa átt aðild að ríkisstjórnum sem hafa á fyrri stigum komið að rammaáætlun með einum eða öðrum hætti. Það er þó ákveðinn ávinningur fólgin í því að það sé sátt um það, a.m.k. í orði kveðnu, að rétt sé að hafa eitthvert slíkt vinnulag á, að nýta slíkt vinnulag þegar ákvörðun er tekin um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það er einhvers virði.

Það er líka einhvers virði, svo ég haldi mig á hinum jákvæðari nótum, að í umræðum eru tiltölulega fáir virkjunarkostir, ef svo má segja, sem raunverulega hefur verið ágreiningur um. Ef við bara horfum á þann fjölda virkjunarkosta sem hefur verið undir í þeirri umræðu, eða vinnu sem nú er skilað inn í þingið í formi þingsályktunartillögu, er ágreiningurinn um tiltölulega fáa kosti. Við höfum tillögu þar sem 67 kostir eru flokkaðir í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Ef ég fer yfir það í huganum heyrist mér að það séu kannski ekki fleiri en 10 virkjunarkostir sem einhver ágreiningur er um. Menn eru alla vega í orði kveðnu sáttir við hugmyndafræðina á bak við rammaáætlun og þá er líka hægt að segja sem svo að sú vinna hafi kannski skilað okkur því að ágreiningurinn snúist um til þess að gera fáa virkjunarkosti, miðað við þann fjölda sem var lagður til grundvallar í vinnunni. Það er jákvætt.

Hinu ber ekki að leyna að þeir kostir sem ágreiningur er um eru vissulega í hugum beggja, bæði þeirra sem vilja nýta og þeirra sem vilja vernda, afar mikilvægir. Ef við horfum til dæmis á þá sex virkjunarkosti sem ráðherrarnir tveir, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, fluttu úr nýtingarflokki í biðflokk er um að ræða vatnsaflsvirkjanir sem hefðu í för með sér verulega innspýtingu fyrir hagkerfið. Þarna væri um að ræða tiltölulega hagkvæma kosti sem hægt væri að ráðast fljótt í. Þá erum við að tala um Hágönguvirkjanir, Skrokköldu og virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Það eru allt saman kostir sem hægt væri að ráðast í tiltölulega fljótt, a.m.k. suma þeirra, og mundu skila umtalsverðri orku með tiltölulega litlum umhverfisáhrifum og væru þar að auki frá hagkvæmnissjónarmiði vænlegir kostir. Þrátt fyrir að þeir kostir séu ekki margir í samanburði við allan þann fjölda sem hér hefur verið til umfjöllunar, og hefur verið undir í þessari vinnu, er breytingin sem hæstv. ráðherrar, Oddný Harðardóttir og Svandís Svavarsdóttir, gerðu á þeim drögum sem var beint til þeirra af svokölluðum formannahópi verkefnisstjórnar, þ.e. formanni verkefnisstjórnar og formönnum faghópa, miklu meiri en nemur í raun og veru fjölda þeirra kosta sem þarna eru undir. Þetta er ákvörðun um að taka nokkra af hagkvæmustu kostunum sem sumir hverjir munu ekki hafa mikil umhverfisáhrif, miðað við aðra kosti sem eru til samanburðar, og kosti sem hægt væri að ráðast tiltölulega hratt í. Sú ákvörðun ráðherranna mun hafa mjög mikil áhrif á orkumálin og orkunýtingu hér á landi á næstu árum.

Ég hef vísvitandi ekki nefnt aðra virkjunarkosti sem kynnu að vera umdeildir. Ég hef heyrt, í þessari umræðu og í nefndarstarfi á fyrri stigum, ýmsa færa ágæt rök fyrir virkjunarkostum í Skaftárhreppi, í Hagavatnsvirkjun og eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði í dag, virkjununum í Skagafirði. Ég kýs að nefna það ekki sérstaklega vegna þess að til að ná sem víðtækastri sátt um niðurstöðu í þeim efnum er mikilvægt að reyna að takmarka sig, koma ekki með óskalista, hvorki minn né einstakra annarra þingmanna, og leggja hér fyrir heldur reyna að nálgast málið út frá einhverjum þokkalega hlutlægum forsendum. Ég tel að það hafi formaður verkefnisstjórnar og formenn faghópa gert þegar þeir gerðu drög sín að þingsályktunartillögu á síðasta ári. Ég tel að þeir hafi byggt á tiltölulega góðum málefnalegum sjónarmiðum og vönduðum undirbúningi þegar þeir komust að þeirri niðurstöðu að þessir tilteknu kostir sem við höfum verið að ræða um, ættu að vera í nýtingarflokki.

Ég verð að játa að þau rök sem hafa komið fram fyrir breytingunni sem hæstv. ráðherrar Oddný G. Harðardóttir og Svandís Svavarsdóttir gerðu finnst mér heldur veik í samanburðinum við það sem styður þessa virkjunarkosti. Þarna held ég að við rekum okkur á hugmyndafræðilegan ágreining. Við rekum okkur á pólitískan ágreining, ekki bara flokkspólitískan heldur pólitískan í víðari merkingu. Á muninn milli þeirra sjónarmiða sem telja annars vegar að nægilega mikið hafi verið virkjað, það sé ekki sérstök þörf á að fara í frekari uppbyggingu á sviði orkunýtingar eða orkufreks iðnaðar þannig að við tölum um nýtingarmöguleikana til enda. Við höfum ólíka sýn á það og kannski er það niðurstaðan af þessari umræðu að við erum ekki enn komin svo langt að vera búin að finna jafnvægið milli annars vegar sjónarmiðsins um að frekari uppbygging á orkuvinnslu og orkufreks iðnaðar sé óþörf og óæskileg, og hins vegar sjónarmiðanna um að nauðsynlegt sé að halda áfram að virkja orkulindir landsins, auka við orkunýtinguna til að bæta lífskjör, efla atvinnulíf og auka atvinnu. Þarna kannski kristallast munurinn. Í því að þeir sem leggja lóð sitt á vogarskálarnar með því að tillaga ráðherranna verði samþykkt óbreytt, telji einfaldlega að það sé nóg að gert í bili. Það sé ekki þörf og ekkert sem knýr á um að farið verði í virkjunarframkvæmdir á næstunni. Hugsanlega einhvern tíma í framtíðinni, en segjum sem svo að við viljum ekki frekari uppbyggingu stóriðju. Við viljum ekki uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Við viljum beina sjónum okkar annað.

Sumir eru einfaldlega þeirrar skoðunar, eins og ég hef heyrt hæstv. umhverfisráðherra segja á vettvangi þingsins og víðar, að hagvöxtur sé stórlega ofmetið hugtak. Það er alveg sjónarmið og skýrir auðvitað ákveðna nálgun í því sambandi. Um það næst ekki sátt, um það er ágreiningur Við erum sem sagt komin nokkuð áleiðis en við erum ekki komin á endapunkt. Því hef ég fyrr í umræðunni reifað það sjónarmið að verði niðurstaða þingsins í þessari lotu á þann veg sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til, og ráðherrarnir tveir lögðu til á sínum tíma, sé málinu langt frá því lokið. Þá sé viðbúið, fyrst sú niðurstaða mótast af tilteknum pólitískum straumum umfram aðra og mótast af pólitískum áherslum þeirra sem eru í meiri hluta í þinginu í dag, að nýr og öðruvísi samsettur meiri hluti nálgist málið á annan hátt. Í ljósi þess hversu skammt er til kosninga getur vel verið að sú staða komi upp strax á vordögum. Auðvitað vitum við ekkert um það en það eru ákveðnar líkur á því.

Þess vegna hef ég leyft mér að halda því fram eða að minnsta kosti leyft mér að spyrja hvort sú rammaáætlun sem nú er til umfjöllunar verði nokkurn tíma meira en rammaáætlun núverandi ríkisstjórnar. Ef það verður niðurstaðan að þetta verður rammaáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, er líftími hennar ekki langur. Þá er ljóst að nýr meiri hluti mun láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum að endurskoða niðurstöðuna. Auðvitað ekki alla kostina 67 sem eru á borðinu, það liggur í augum uppi, en umdeildustu atriðin og þá sérstaklega þau sem ráðherrarnir tveir og meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd taldi ástæðu til að færa úr nýtingarflokki í biðflokk á hæpnum forsendum. Sú ákvörðun sem kann að verða tekin í þinginu einhvern tíma á næstu sólarhringum, við vitum það ekki, verður afar skammlíf ákvörðun. Þess vegna hefur, eins og ég nefndi eiginlega við upphaf umræðunnar í dag, nálgun okkar sjálfstæðismanna verið sú að það væri betra áður en slík skammlíf ákvörðun væri tekin að málið væri sett í þann farveg að verkefnisstjórnin sem var búin að vinna faglega vinnu, fengi málið aftur í hendurnar áður en Alþingi afgreiddi málið frá sér. Fagleg, (Forseti hringir.) málefnaleg vinna yrði lögð í að ljúka verkinu (Forseti hringir.) í von um að það auðveldi okkur hér í þinginu að ná einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu, niðurstöðu sem við a.m.k. getum lifað við.