141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Það hefur komið fram í umræðunum að allt þetta ferli byggist á miklu trausti og samráði við aðila úti í samfélaginu, þingmenn á þessu 13 ára ferli, hagsmunaaðila og svo þá sem komu bæði úr umhverfis- og iðnaðargeiranum á sínum tíma.

Lögin voru samþykkt samhljóða 2011 og í þeirri lagasetningu fólst áframhaldandi traust um að ríkisstjórnin mundi ekki misfara svo með vald sitt, eins birtist í þessari þingsályktun í dag. Hvað finnst hv. þingmanni um að þegar málið er komið í það ferli sem það er í, sé það raunverulega sett upp í loft og að ríkisstjórnin hafi, má segja, svikið á síðustu metrunum? Þegar lögin voru sett stóðu þingmenn í þeirri meiningu að rammaáætlun mundi koma óbreytt hingað til þingsins.