141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega svo að ég líkti rammaáætlun í fyrri ræðu minni í dag við samfélagssáttmála. Varðandi stjórnarskrárvinnuna hefur verið talað um að stjórnarskrá eigi að vera samfélagssáttmáli þjóðarinnar. Ég lít svo á að rammaáætlun sé sprottin af sama meiði enda var hún, allt þar til þessi ríkisstjórn greip í taumana og kom sínum pólitísku fingraförum inn í það plagg, unnin á þann hátt að aðilar voru komnir að borðinu. Það ríkti traust. Þarna var verið að meta kosti, þá sem áttu að bíða, þá sem áttu að vera friðlýstir og þá sem voru taldir vera bestu virkjunarkostirnir. Ríkisstjórnin kemur fram með þetta núna eftir 13 ára vinnu, setur málið í uppnám, rýfur samfélagssáttmálann og fer fram með málið í ófriði en ekki friði. Hvað getum við gert (Forseti hringir.) í því eftir kosningar þegar sú ríkisstjórn er frá, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) til að vinda ofan af þeirri vitleysu?