141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Án þess að ég vilji með nokkrum hætti varpa rýrð á útreikninga þeirra góðu hagfræðinga sem stóðu að skýrslu Gamma held ég að kannski sé ekki nokkur leið að segja með vissu fyrir um nákvæmar upphæðir í því sambandi. Ákveðin reikniformúla leiddi til þeirrar niðurstöðu sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson vísar hér til. Ég held að við getum sagt óumdeilt að frestun allra þessara virkjunarkosta til einhverra ára, sennilega meira en fjögurra ára, ég veit það þó ekki, þýðir umtalsvert minni fjárfestingu sem nemur tugum eða hundruðum milljarða og hægir mikið á þeirri efnahagslegu uppbyggingu sem mundi annars geta átt sér stað. Ég held að við getum verið nokkuð sammála um það. En auðvitað eru það ekki nákvæmnisvísindi þegar menn reikna sig að einhverri niðurstöðu í þeim efnum.