141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vona að hæstv. forseti hafi ekki misskilið mig áðan en enn eru ekki viðbrögð frá hæstv. forseta við ábendingum mínum. Ég ítreka að ég tel að þeir fjölmörgu þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér eru staddir hafi ekkert við það að athuga að fara í gegnum nokkrar ræður fram eftir nóttu til að undirbúa ræðuhöld næstu daga og æfa sig, en menn fá það á tilfinninguna, og líklega réttilega þegar þeir eru látnir tala um miðjar nætur, að það séu ekkert margir að fylgjast með og allra síst líklega stjórnarliðar og þess vegna verði þeir að ítreka hlutina daginn eftir og jafnvel næstu daga.

Því beini ég til virðulegs forseta að hann nýti tíma þingsins betur því mér finnst, eins og hv. þm. Árni Johnsen gæti orðað það, að hér skorti töluvert á verksvit. Að menn gætu skipulagt sig betur, nýtt tímann betur og gert þessa umræðu gagnlegri með því að skipuleggja sig betur.