141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er í raun með ólíkindum að þetta mál skuli vera á dagskrá nú vegna þess að það eru mörg önnur mál sem þarf að ræða og koma til nefnda. En það er greinilega forgangsröðun meiri hlutans að láta þetta mál ganga fyrir og ræða það inn í nóttina og væntanlega næstu daga.

Ég vil hins vegar ítreka við hæstv. forseta það sem ég sagði áðan, en ég fór fram á að ráðherrar þessa málaflokks yrðu ræstir út til að vera við þessa umræðu. Það er vitanlega mikilvægt að þeir séu hér, hlusti á og taki þátt eftir atvikum, og einnig að fyrirsvarsmaður málsins verði hér líka, hv. þm. Mörður Árnason. Það er óásættanlegt að halda áfram að ræða málið meðan þessir aðilar eru ekki viðstaddir.

Það eru mörg dæmi um það í þingsögunni, virðulegi forseti, að ráðherrar sérstaklega séu kvaddir í hús að kvöldi til og að nóttu til til að vera viðstaddir umræðu um mál. Ég skora því á hæstv. forseta að beita sér í þessu máli líkt og hefur verið gert árum saman í þinginu.