141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta voru skrýtnar upplýsingar sem virðulegur forseti flutti þinginu. Hann upplýsti að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra væri alla vega vakandi. Við sjáum þess ekki stað í þinginu, við köllum hæstv. ráðherra hingað til þingsins til að fylgjast með þessari mikilvægu umræðu, sérstaklega í ljósi þess að sú umbylting á málinu sem er til umræðu er á ábyrgð þessa ráðherra.

Oft á tíðum þegar vinstri flokkarnir voru í stjórnarandstöðu var gert hlé á þingfundi til að ráðherrar kæmust niður í þinghús. Ég kalla það ekki ofverk ráðherra frekar en þingmanna að stunda hér næturfundi, því hvers á þessi stefna þeirra að gjalda þegar helstu mál eru keyrð hér í gegn á nóttunni?

Virðulegi forseti. Ég fordæmi þessi vinnubrögð og bið um það enn á ný að þessir aðilar komi hér í þinghúsið og verði til andsvara í málinu svo að þetta sé ekki allt eintal (Forseti hringir.) hjá stjórnarandstöðunni. Við erum að biðja um (Forseti hringir.) svör í þessu máli. (Gripið fram í: Engin svör.)