141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Við getum talað um aðför að undirstöðuatvinnugreinum, sjávarútveginum, eins og hv. þingmaður benti á og við höfum horft upp á smiði og iðnaðarmenn í þúsundavís yfirgefa landið á undangengnum árum. Nú mælir ríkisstjórnin fyrir því að fresta 5 þús. ársverkum með því að færa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk, á sama tíma og við gætum boðið þetta fólk velkomið heim til sín aftur. Þetta er náttúrlega með hreinum ólíkindum.

Og hvað um uppbyggingu í ferðaþjónustunni? Við vitum að vegna stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart þeirri atvinnugrein og skattlagningunni hafa menn sett á bið hótelbyggingu í Borgarfirði, á Snæfellsnesi og í Skagafirði, svo fátt eitt sé nefnt. Það virðist allt ætla að verða okkur að óláni, sérstaklega þegar kemur að hringlandahætti ríkisstjórnarinnar í málefnum grundvallaratvinnugreina þjóðarinnar. Á sama tíma horfum við upp á litlar tekjur sem koma inn hjá ríkissjóði og þar af leiðandi er erfiðara að efla heilbrigðisþjónustuna. Hv. þingmaður nefndi hjúkrunarfræðinga og kjör þeirra og við getum talað um fleira í velferðarþjónustunni.

Nei, á sama tíma og þetta gengur allt yfir og menn eru í miklum erfiðleikum með að halda úti öflugu heilbrigðis- og velferðarkerfi kemur tillaga frá Vinstri grænum og Samfylkingu um að tvöfalda heiðurslaun listamanna. Tvöföldun á launum þeirra. Þessi pakki fer að nálgast 100 millj. kr. með sama áframhaldi. Hvers lags verksvit er þetta, eins og hv. þm. Árna Johnsen er tamt að tala um? Þetta er ekkert verksvit. Er þetta sú atvinnustefna sem við eigum að byggja á til langrar framtíðar? Ég segi nei takk.