141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frá fyrsta degi í starfi umhverfis- og samgöngunefndar við nefndarálitið skynjaði ég engan vilja hjá talsmanni málsins, hv. þm. Merði Árnasyni, sem er reyndar ekki hér í kvöld þó að kallað hafi verið eftir því, og lítinn vilja til að ná breiðri sátt í málinu, sem er svo mikið kallað á úti í samfélaginu, þ.e. að við leitum leiða til að ná breiðri samstöðu.

Ég vil þó taka undir það með hv. þingmanni að undir forustu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, sem er formaður nefndarinnar, hefur verið vilji til að leita víðtæks samráðs og sáttar um ýmis mál, hvort sem þau eru stór eða lítil. Mér hefur fundist það almennt í málum í umhverfis- og samgöngunefnd. Oft og tíðum hefur það tekist þannig að nefndin öll hefur getað staðið á bak við þau. Það er mikil kúnst, eins og hv. þingmaður talaði um, og mikilvægt að málum sé stýrt og þau unnin af lipurð til að ná sátt við þjóðina í staðinn fyrir að keyra á aflinu og kraftinum. Ég held að hægt hefði verið að ná breiðari sátt í málinu, bæði á þinginu og við þjóðina. Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvað hefði þurft að gerast öðruvísi í nefndarstarfinu sjálfu eða á þinginu, því að þar gátum við haft áhrif á málið, ég og hv. þingmaður, til þess að mögulegt hefði verið að ná slíkri sátt. Getur hv. þingmaður farið aðeins ofan í það?