141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að því máli sem ég ætlaði að nefna hér verð ég aðeins að koma inn á ræðu hv. þm. Þórs Saaris. Það er ekki hægt að sitja undir þeim ávirðingum og þeirri furðulegu ræðu sem hv. þingmaður flutti hér. Það liggur við að manni verði flökurt þegar hv. þingmaður talar um lýðræði með þessum hætti. Er það ekki verkefni okkar þingmanna að fara yfir þingmál og ræða þau til hlítar? Hvar var hv. þingmaður þegar við ræddum rammaáætlun eða fjárlög? (ÞSa: Ég var hér í salnum.) Þingmenn eiga að taka þátt í umræðunni. (ÞSa: Ég var hér í gær.) Það sem er að lýðræðinu (Gripið fram í.) er að sumir þingmenn eins og hv. þm. Þór Saari líta svo á að þingið sé afgreiðslustofnun fyrir meiri hlutann á hverjum tíma. (Gripið fram í.) Hér á bara að rúlla málunum í gegn (Gripið fram í.) án þess að þau séu rædd með vitrænum hætti. Hv. þingmaður er greinilega stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og hefur alltaf verið. (Gripið fram í.) Þess vegna liggur honum á að koma málunum hér í gegn. Það er algerlega ólíðandi að sitja undir ræðu eins og hv. þingmaður hélt, ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar og ekki bara þrisvar. Það er Alþingi til skammar, frú forseti. (ÞSa: Ræddu þingmál.)

Virðulegi forseti. Getur hv. þingmaður kannski haft hljóð meðan ég tala hérna? Ég er að skamma hann úr ræðustól, hann á ekki að grípa fram í.

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Við sjáum það í fjölmiðlum í dag að vandinn og vandræðagangurinn á evrusvæðinu eykst. Nú berast fréttir af því að svokallað bankabandalag sé í uppnámi. Svíar hafa lýst því yfir að þeir taki undir með Bretum þegar kemur að því að ræða bankabandalagið og það eykur enn á vandræðaganginn og óvissuna innan Evrópusambandsins. Á meðan haga stjórnvöld á Íslandi sér eins og ekkert hafi í skorist. Enn er haldið áfram á þeirri vonlausu vegferð að semja við Evrópusambandið og ekki nóg með það heldur kemur líka fram í fjölmiðlum í dag að ef Íslendingar ætla sér að ganga í Evrópusambandið verða þeir að taka allan lagabálkinn upp (VigH: Já.) eins og hann er, eins og hann liggur fyrir. Hvað með allar undanþágurnar eða þá skapandi hugsun sem er búið að ræða í þessum ræðustól af hæstv. utanríkisráðherra, svo einhver sé nefndur hér? Er hægt að beita skapandi hugsun við að breyta lagabálki Evrópusambandsins þegar fyrir liggur að það er ekki í boði? Hvað í ósköpunum eru menn að tala um?

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum (Forseti hringir.) alvarlega umræðu í þingsal um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og athugum hvort meiri hluti er fyrir því í þinginu að halda henni áfram eða ekki.