141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði áðan við afgreiðslu hæstv. fjármálaráðherra á beinum upplýsingum úr hv. fjárlaganefnd. Á mínum stutta tíma á þingi hef ég séð mörg hrokafull bréf og svör frá ýmsum aðilum, en þetta keyrir algerlega um þverbak. Af hverju segi ég það? Jú, það kemur fram í bréfinu, sem sent er 6. nóvember — en ráðuneytið hefur samkvæmt þingsköpum sjö daga til að afgreiða málið, þ.e. í síðasta lagi til 13. nóvember — að þar sem fjáraukalagafrumvarpið hafi verið afgreitt 19. nóvember komi það okkur nánast ekkert við. Það er mjög umhugsunarvert í hvaða stöðu þingið er gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Síðan vil ég ræða undir þessum lið þau miklu vonbrigði mín sem snúa að svokölluðum breytingum á safnliðum. Mér var eiginlega öllum lokið, ég var einn af þeim sem tóku þátt í því að breyta fyrirkomulaginu á úthlutun safnliða. Síðan gerist það við 2. umr. fjárlaga að settir eru inn nokkrir safnliðir og við 3. umr. fjárlaga, í breytingartillögum meiri hlutans, eru mjög margir liðir settir þar inn.

Mín skoðun er sú alveg skýr, þarna er gengið þvert á sett markmið með breytingum á safnliðunum. Sumir sem vilja fá áheyrn hjá þinginu til að sækja um fé til ýmissa framfaramála fá ekki aðgang en einhverjir aðrir fara ekki til fjárlaganefndar heldur hafa þeir beinan aðgang að fulltrúum stjórnarmeirihlutans. Það er til háborinnar skammar og það er alger mismunun sem var einmitt það sem breyta átti með því að færa safnliðina í faglegri farveg. Ég lýsi miklum vonbrigðum með þessar tillögur meiri hlutans og ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að sumir hv. þingmenn sem hér eru inni greiði atkvæði með þessum breytingum ef haft er í huga (Forseti hringir.) það sem á undan er gengið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)