141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni hvað það varðar að hér var ágæt umræða í gær um rammann. Það sem var ólíkt því sem oft hefur verið er að stjórnarliðar tóku ágætan þátt í umræðunni. Fjöldi stjórnarliða hélt ágætar ræður og hér fór fram umræða um þetta mikilvæga mál. Það var jákvætt og ég vona að það verði áfram því að við þurfum að ræða það mikilvæga mál hvernig við eigum að haga verndar- og nýtingarstefnu á náttúruauðlindum í landinu.

Ég vil vekja athygli á öðru. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var undrandi yfir því að mönnum væri heitt í hamsi. Mér er kannski ekki heitt í hamsi en verð að játa að ég hef nokkrar áhyggjur af yfirlýsingum seðlabankastjóra. Það liggur fyrir að Seðlabankinn er ekki að hækka vexti sína en því fylgdi yfirlýsing um að Seðlabankinn hefur áhyggjur af tvennu, annars vegar þróun efnahagsmála erlendis og hins vegar verðbólgu, eðlilega, og kjarasamningum hér eftir áramótin. Það er ástæða til að veita þessum orðum seðlabankastjóra athygli.

Við höfum vandann og deiluna á Landspítalanum sem er augljóslega erfið staða. Forseti Alþýðusambands Íslands hefur gefið fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar þá einkunn að það setji stöðu kjaraviðræðna í uppnám, að það éti upp og eyði svigrúmi fyrirtækja til að standa undir launahækkunum, það sé hætta á verðbólgu og þar af leiðandi augljóslega á hækkun lána heimilanna. Seðlabankastjórinn segir: Ef launahækkanir fara tiltekið yfir framleiðniaukninguna er komin pressa á vaxtahækkun. Það er einmitt vegna þessa sem við höfum áhyggjur af þessu fjárlagafrumvarpi, (Forseti hringir.) út af því að við höfum áhyggjur af verðbólgunni, við höfum áhyggjur af kjarasamningunum og lánum heimilanna. Það er það sem við höfum reynt (Forseti hringir.) að leiða fram í umræðunni.