141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á alvarlegri stöðu í íslenskum sjávarútvegi sem komin er upp og á sér nokkrar skýringar. Það má segja að allar þær verstu spár sem fram komu við umfjöllun á frumvörpum ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnarmál séu að rætast.

Það er haft eftir formanni Landssambands smábátaeigenda að hann hafi ekki séð stöðuna svo svarta í 40 ár. Það kom fram hjá honum á fundi atvinnuveganefndar þar sem hann var gestur í gærmorgun ásamt framkvæmdastjóranum. Það hefur komið fram hjá stjórnarmönnum þess sambands að það sé fyrirsjáanlegur flótti úr þeirri grein og víðar hefur komið fram að nú séu forsvarsmenn lítilla og meðalstórra fyrirtækja að hugsa sér mjög til hreyfings og hvernig þeir geti komið sér út úr greininni og selt fyrirtæki sín.

Við þessu öll var varað í umfjöllun um fiskveiðistjórnarfrumvörpin sem lögð voru fyrir þingið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, það yrði aukin samþjöppun og þetta kæmi verst við lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er allt að ganga eftir.

Verum minnug þess að á þessum tíma fyrir einu ári þegar fyrirséð var að hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrímur J. Sigfússon settist í stól þess ráðuneytis sagði hann í þinginu að það mundi taka hann svona þrjár vikur að ljúka þessu máli, að létta þeirri óvissu af greininni sem þetta hefur kallað yfir hana.

Á sama tíma og þetta er staðan í íslenskum sjávarútvegi, undirstöðuatvinnugrein okkar, erum við að ræða rammaáætlun. Samtök atvinnulífsins og samtök fyrirtækja og verkalýðsfélaga kalla mjög eftir aukinni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Það er alveg ljóst að sú rammaáætlun sem við fjöllum um hérna mun kosta stopp í beinni erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi þar sem helstu sóknarfæri okkar eru. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að segja að það sé bjart yfir íslensku atvinnulífi, kolsvart ský hangir yfir okkur og fólk verður að fara að sýna ábyrgð í þingsal. (Forseti hringir.) Þingmenn verða að fara að sýna ábyrgð og hætta að tala um eitthvert nýtt Ísland (Forseti hringir.) og einhverja öðruvísi framtíð byggða á öðrum grunni en þeim grundvallaratvinnugreinum sem við verðum að (Forseti hringir.) byggja afkomu þessarar þjóðar á.