141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

viðvera ráðherra og framsögumanns máls.

[15:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir þær óskir sem komið hafa fram um að báðir ráðherrar málaflokksins verði viðstaddir umræðuna þannig að hægt sé að fá frá þeim svör og upplýsingar um málið. Málið er frá þeim komið og það hefur ekki breyst í meðförum þingsins heldur er lagt til að það verði samþykkt óbreytt. Það er ekki óeðlileg ósk og ekki ómálefnaleg eða ósanngjörn á neinn hátt.

Það er auðvitað hárrétt að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur setið hér og tekið þátt í umræðunni og ber að fagna því. Hitt er annað mál að hv. formaður nefndarinnar hefur um margt önnur sjónarmið en fram koma í niðurstöðum meiri hlutans vegna þess að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar, ásamt reyndar fleiri nefndarmönnum í meiri hlutanum, undirrita málið með fyrirvara varðandi mjög mikilvæga þætti þess. Ekki er hægt að ætlast til þess (Forseti hringir.) að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar endurspegli með öllu sjónarmið meiri hlutans í málinu.