141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að gamlir dómarataktar láta á sér kræla hjá hæstv. forseta akkúrat í þessari umræðu. Það er bara fínt og það er vel.

Varðandi spurningar hv. þingmanns skiptir mig mestu máli er að það sé faglega að staðið að þessu og að það verði hlustað á það sem verkefnisstjórnin hefur sagt. Ég man þegar ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera með Ómari Ragnarssyni í flugvél þar sem hann flaug með mér og fleirum yfir Aldeyjarfoss og sýndi mér náttúruundrin á Íslandi. Maður hefur upplifað það meðal annars á hestbaki hvernig náttúran er og hefur þá að sjálfsögðu sínar skoðanir á því hvað á að virkja og hvað á að vernda. En hef ég rétt á því að koma og segja: Þú átt að vera með, ekki þú, þetta verður verndað, þetta verður friðað? Ég hef engan sérstakan rétt umfram annan til að gera það. Við hvað á ég þá að styðja mig? Ég verð að styðja mig við faglega nálgun. Það sem við sjálfstæðismenn erum að reyna að setja fram með okkar tillögu, af því að við höfum öll okkar sérstöku persónulegu skoðanir á virkjunarkostum og verndunarkostum, er að setja þetta í eins faglegan farveg og hægt er sem við höfum reynt að sammælast um í gegnum tíðina, og alla vega reyna að fara þá leið að fela þetta verkefnisstjórninni.

Ég efa það ekki að þegar verkefnisstjórnin mun síðan koma fram með sínar tillögur verða skiptar skoðanir um þær. En hvað höfum við þá samt gert? Fá stjórnmálaflokkana alla með tölu, ekki bara einn eða hluta af öðrum og hluta af þriðja, til að sammælast um ákveðna aðferð og ákveðna niðurstöðu sem enginn getur borið öðruvísi pólitíska ábyrgð á en að standa með henni. Þannig vil ég nálgast þetta. Ég get tjáð mig um marga fleiri kosti og hef meðal annars bent á jarðhitasvæðin. Mér er til efs að það sé rétt að setja öll jarðhitasvæðin, eða sérstaklega þau jarðhitasvæði sem eru á Reykjanesi, strax í virkjunarflokk miðað við þær rannsóknir sem á eftir að gera.

Það hafa verið mikil átök í íslensku samfélagi um verndun, nýtingu o.s.frv. Þess vegna tel ég farsælast (Forseti hringir.) til að reyna að taka tillit til sögunnar og náttúrunnar að við reynum að setja það í þann farveg sem við sjálfstæðismenn höfum bent á.