141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sagt það áður að mér finnst að við eigum að fara í ákveðnar virkjanir eins og Holtafoss í neðri hluta Þjórsá. Ég hef sagt það. Á hverju byggi ég það? Meðal annars á tillögu verkefnisstjórnar sem segir, og við sjáum það í umsögnum hvaðanæva, að fáir virkjunarkostir séu jafnmikið rannsakaðir eins og þeir. Fyrir utan Norðlingaölduveitu sem er ekki virkjun í sjálfu sér heldur veita. Það eru allt saman hagkvæmir virkjunarkostir fyrir okkur Íslendinga og það skiptir máli núna þegar við þurfum að koma okkur út úr kreppunni hvernig við byggjum upp hagvöxt til lengri tíma litið.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé til hagsbóta fyrir náttúruna ef við hv. þingmaður og aðrir sem eru hér inni stöndum frammi fyrir því að samþykkja eitthvert plagg, sem verður síðan ekki tekið mark á eftir kosningar af því að því var snúið upp í það pólitíska plagg sem það er meira núna en nokkurn tíma áður? Er það til hagsbóta fyrir málið þegar flokkar eins og bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa sagt: Við erum ekki bundin af því plaggi eins og það liggur fyrir en erum reiðubúin að skuldbinda okkur til að fara eftir því sem verkefnisstjórnin (Forseti hringir.) um rammaáætlun er tilbúin að leggja til? Það getur verið sársaukafullt fyrir marga, ekki síst fyrir marga þingmenn Sjálfstæðisflokksins.