141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Jóni Gunnarssyni um að hér verði engin skref stigin fyrr en þessi mál verða sett í þann farveg sem þau eiga heima, þar sem þau voru komin, í þjóðarsátt áður en vinstri flokkarnir komust inn í rammaáætlun með fingur sína. Ég er hins vegar ekki alveg sammála þingmanninum um að það sé samkomulag á milli stjórnarflokkanna varðandi þetta. Við sjáum hvernig er búið að skipta niður virkjunarkostunum á Suðurlandi þar sem hv. þáverandi fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir samdi augljóslega við hæstv. umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur um að taka vatnsaflið úr neðri hluta Þjórsár, fresta því og setja frekar áhersluna á Suðurnesin þar sem vantar stórkostlega orku. Mesta atvinnuleysi á landinu er á Suðurnesjum og þeir þurfa að sjálfsögðu að byggja þar upp. En svo koma Vinstri grænir inn í þingið þegar búið er að landa þessu samkomulagi og þá er allt í einu farið að tala um að það vanti svo mikið upp á rannsóknir varðandi jarðvarmann og þetta sé svona og hinsegin og margir óvissuþættir ofan á. Það kom fram í andsvari hjá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur hér áðan að slíkar efasemdir eru komnar upp. Um leið og blekið er þornað og það er verið semja sín á milli þá koma Vinstri grænir og slá það út af borðinu. Mér finnst þetta samkomulag ekki vera eitthvað sem hægt er að stóla á þegar annar stjórnarflokkurinn talar með þessum hætti.

Við skulum líka minnast á það vegna þess að hér verður ekki farið í atvinnuuppbyggingu nema við virkjum á skynsamlegan hátt. Einu sinni átti ferðaþjónustan að bjarga Vinstri grænum. Það var alltaf verið að tala um að gera eitthvað annað en að virkja. Hvað gerist þegar ferðaþjónustan er svo komin sæmilega af stað í íslensku samfélagi? Jú, jú, þá á náttúrlega bara að skatta hana út af borðinu. (Forseti hringir.) Svona vinna vinstri flokkar. Þeir líta svo á atvinnulífið að það sé (Forseti hringir.) til óþurftar fyrir landsmenn.