141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt og kemur fram í framkvæmdaskýrslu Landsvirkjunar að miðað við þessa ákveðnu ekki of hröðu uppbyggingu og nýtingu virkjunarkosta í nýtingarflokki mundu uppsöfnuð störf vera um 11 þúsund þegar mest léti. Hagvöxtur mundi á því uppbyggingartímabili aukast að jafnaði um 1,4% á ári. Hann yrði um 2,5% þegar mest léti og ef teknar hefðu verið ákvarðanir um það 2011 væri hagvöxturinn þar með sennilega að sigla í að minnsta kosti 5% á næsta ári. Þumalputtareglan segir okkur að það eru um þúsund störf sem fylgja hverju hagvaxtarprósenti.

Það er alveg rétt að það er einmitt hagvöxtur byggður á framleiðsluverðmætum, eins og kemur út úr framleiðslu frá fyrirtækjum sem eru í orkufrekum iðnaði, sjávarútvegi o.s.frv., sem er byggður á sterkasta grunninum. Hann skapar útflutningsverðmæti, gjaldeyri til að efla hér allt samfélag og gerir okkur kleift að standa betur í skilum svo að við getum keypt þær nauðsynjavörur sem við þurfum að flytja inn.

Hvernig ætlum við að viðhalda þeim hagvexti þegar framkvæmdatíma er lokið? Það er auðvitað vandamál hvers tíma að fást við það en eins og ég sagði áðan þurfum við að auka fjölbreytni í samfélagi okkar. Það sem mér finnst augljóst mál og augljós framtíðarsýn í því er aukin fullvinnsla afurða á Íslandi. Það hlýtur að vera einhver fasi sem er áhugavert að stíga inn í, að við sjáum fyrir okkur aukna framleiðslu úr afurðum þeirra verksmiðja sem eru hér til staðar, t.d. í álinu, og af þeim fyrirtækjum sem kæmu til landsins. Þannig værum við að skapa aukinn fjölda starfa, (Forseti hringir.) aukna framleiðni ásamt því að efla allt það sem við fórum yfir áðan og auka fjölbreytnina samhliða þeim skrefum sem eru stigin í orkufrekum iðnaði.