141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég vitni aftur til McKinsey-skýrslunnar kemur það einmitt fram að neikvæða umræðan á Íslandi hefur oft og tíðum snúist um þær atvinnugreinar sem byggja á náttúruauðlindanýtingunni. Því miður hefur umræðan ekki snúist um 65% þáttinn af mannaflanum sem er ekki í náttúruauðlindanýtingu og er ekki í alþjóðlegu starfi. Það er talað um að á næstu árum þurfum við að gera einhverja samþætta áætlun sem gerir það að verkum að hver atvinnugeiri af stærstu þremur atvinnugreinunum skilar aukinni framleiðni og arðsemi. Meðal annars er sagt að 13 þúsund manns verði að fara úr þeim 65% geira yfir í meira arðsöm störf í orkugeiranum, sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og síðan inn í alþjóðlega atvinnugeira sem tekur lengri tíma. Það er þó áhugavert að upp úr þeim atvinnugeirum hefur einmitt skapast þekkingariðnaður sem er að verða alþjóðlegur.

Hv. þingmaður nefndi Jarðboranir og þau verkefni sem Jarðboranir eru í. Af hverju eru Jarðboranir í verkefnum hingað og þangað um heiminn? Það er vegna þess forskots sem við höfum skapað okkur með vinnslu innan lands á liðnum áratugum. Ef það verður hins vegar stöðnun innan lands í mörg ár töpum við því forskoti því auðvitað eru aðrar þjóðir og sambærileg fyrirtæki stöðugt að þróast. Ég vildi þess vegna spyrja hv. þingmann hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að í því langtímaplani sem m.a. er minnst á í McKinsey-skýrslunni, að við þurfum að stækka kökuna í alþjóðlega geiranum, (Forseti hringir.) verði grundvöllurinn fyrir því allt í einu horfinn ef fyrirtæki sem eiga að starfa í þeim geira á Íslandi fá engin tækifæri til að þróa sig innan lands og geta þar með flutt út (Forseti hringir.) þekkingu og atvinnustarfsemi sína.